Telja orð framkvæmdastjóra SFS nýjar upplýsingar

Stjórn Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda telja yfirlýsingar framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja …
Stjórn Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda telja yfirlýsingar framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um fiskverð nýjar upplýsingar. mbl.is/Rax

Stjórn Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) fagnar þeirri framsetningu Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), að „sú reikniformúla sem við er miðað samkvæmt kjarasamningi á að leiða til sambærilegs verð þegar kemur að skiptaverði annars vegar og markaðsverði hins vegar,“ eins og haft er eftir henni í Fréttablaðinu í dag.

SFÚ metur það svo að þessar upplýsingar frá framkvæmdastjóra SFS gefi tilefni til að álykta að engin fyrirstaða geti lengur staðið í vegi þess að gengið verði að hugmyndum SFÚ og kröfum sjómanna um að eitt fiskverð skuli gilda um öll viðskipti með fisk í landinu.

Telja samtökin að slík breyting myndi höggva á hnútinn í sjómannadeilunni og því samhliða skapa íslenskum neytendum réttlátara verð á fiski, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá SFÚ í dag.

Heiðrún Lind segir aðspurð að lóðrétt samþætting útgerða, þ.e. útgerðir með eigin vinnslu, hafi verið talin ein lykilforsenda samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á kröfuhörðum erlendum mörkuðum. Bendir hún á að Samkeppniseftirlitið hafi ekki talið skynsamlegt að gera kröfu um að allar fiskur sé fluttur á fiskmarkað áður en hann fari til frekari vinnslu.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir segir lóðrétta samþættingu mikilvæga íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir segir lóðrétta samþættingu mikilvæga íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á kröfuhörðum erlendum mörkuðum. Mynd úr safni.

Heiðrún bætir því við að þótt sú reikniformúla sem við er miðað samkvæmt kjarasamningi eigi að leiða til sambærilegs verðs þegar kemur að skiptaverði annars vegar og verði á markaði hins vegar, eins og eftir henni var haft í Fréttablaðinu, geti þó orðið sveiflur á slíku frá einum tíma til annars og ekki sé algilt að skiptaverð sé lægra en verð á uppboðsmarkaði.

„Þá eru viðskipti á grundvelli langtímasamninga annars vegar og stundarviðskipti á uppboðsmarkaði hins vegar ekki sambærileg. Um það gilda ekki önnur lögmál í sjávarútvegi en í viðskiptum almennt,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Ólafur Arnarson, starfsmaður stjórnar SFÚ, segir orðalag Heiðrúnar Lindar um þessi atriði furðulegt. Að hans mati sé ekki hægt að skilja orð framkvæmdastjóra SFS á annan veg en þann að sama verð sé á fiski á fiskmarkaði og í skiptum.

Ólafur Arnarson, starfsmaður stjórnar SFÚ, segir mikilvægt að stórútgerðir setja …
Ólafur Arnarson, starfsmaður stjórnar SFÚ, segir mikilvægt að stórútgerðir setja meiri fisk á markað en verið hefur. mbl.is/Árni Torfason

 „Okkur finnst þetta vera nýjar upplýsingar vegna þess að þetta passar ekki við þann samanburð sem við höfum gert á þessum verðum,“ tekur Ólafur fram. „Við höfum séð það að markaðsverð er 30-50% hærra en skiptaverð þótt það sé rétt sem fram kemur hjá Heiðrúnu Lind að það er sveiflukennt.“

Ólafur segir SFÚ lengi hafa kvartað yfir því að stóru útgerðirnar leggi lítið inn á markaðina og séu orðnar „óþægilega fyrirferðarmiklar sem kaupendur“ á fiskmarkaðnum. Hann segir stórútgerðir sprengja upp verðið á markaði en ef það sem eftir Heiðrúnu Lind sé haft reynist rétt eigi ekkert að standa í vegi fyrir því að eitt verð á fiski verði látið gilda og tvöfaldri verðmyndun í sjávarútvegi hérlendis verði útrýmt.

„Við fögnum því ef þetta er staðan. Það hlýtur þá að þýða að nægilega lítið beri á milli í kjaradeildu sjómanna og útgerða að eitt verð verði látið gilda í öllum fiskviðskiptum hér á landi. Enda hlýtur það þá að vera markaðsverðið. Ef markaðsverðið nær líka til stórútgerða sem eru með sínar eigin vinnslur er kominn eðlilegur hvati inn í kerfið til þeirra sem halda á öllum þessum aflaheimildum og veiða allan þennan fisk að setja allan aflann á markað. Þá teljum við að verð á markaði muni lækka og það verði til hagsbóta fyrir alla greinina,“ segir Ólafur Arnarson.

mbl.is