Kona sem varð fyrir heimilisofbeldi í Fellahverfi í nótt var flutt á bráðamóttöku Landspítalans til aðhlynningar. Maðurinn var hins vegar handtekinn og gistir fangageymslu lögreglunnar á Hverfisgötu vegna ofbeldisins gagnvart konunni.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar en lögreglan var kölluð á heimili fólksins um eitt í nótt. Í gær komu fjögur heimilisofbeldismál til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Sex gista fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ýmist fyrir ölvun á almannafæri, heimilisofbeldi, þjófnað, akstur undir áhrifum eða fengu gistingu að eigin ósk.