Yfirvöld í Tyrklandi hafa handtekið Murat Sabuncu, ritstjóra stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet, en blaðið hefur verið duglegt við að birta fréttir sem þykja óþægilegar fyrir ríkisstjórn forsetans Recep Tayyip Erdogan.
Samkvæmt heimildarmönnum á blaðinu var um tugur starfsmanna handtekinn en þetta er ekki í fyrsta sinn sem tyrknesk stjórnvöld herða tökin á fjölmiðlum í landinu. Um 10.000 opinberir starfsmenn voru látnir fjúka um helgina og 15 fjölmiðlum, m.a. miðlum hliðhollum Kúrdum, lokað.
Um er að ræða nýjustu aðgerðir yfirvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar í júlí, en stjórnvöld hafa notfært sér hana sem afsökun til að beita sér gegn gagnrýnendum sínum.
Samkvæmt opinberu fréttastofunni Anadolu leitar lögregla nú Akin Atalay, stjórnarformanns Cumhuriyet. Ákæruvaldið í Istanbul hefur sagt að rannsókn standi nú yfir á því hvort blaðið hafi leitast við því með umfjöllun sinni að gefa valdaránstilrauninni lögmæti.
Handtökuskipun hefur einnig verið gefin út á hendur Can Dundar, fyrrverandi ritstjóra Cumhuriyet, sem var dæmdur í fangelsi í maí sl. fyrir að birta ríkisleyndarmál. Málið vakti mikla athygli og áhyggjur af stöðu fjölmiðla í Tyrklandi en blaðið sakaði stjórnvöld um að sjá uppreisnarmönnum í Sýrlandi fyrir vopnum. Erdogan sagði að Dundar myndi greiða umfjöllunina dýru verði.
Dundar er talinn hafast við í Þýskalandi.