Starfsmenn tyrkneska stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet hétu því í fyrirsögn á forsíðu blaðsins í dag að „gefast ekki upp“. Yfirvöld og tugir lykilstarfsmanna blaðsins voru handteknir í gær og sakaðir um stuðning við valdaránstilraun gegn stjórnvöldum í júlí á þessu ári.
Tugir manna söfnuðust saman við höfuðstöðvar blaðsins í Istanbúl í mótmælaskyni við þessar aðgerðir yfirvalda og héldu þar til í nótt.
Forsvarsmenn Evrópusambandsins og stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa fordæmt aðgerðirnar gegn Cumhuriyet, sem hefur verið talið einn af máttarstólpum veraldlegra afla í landinu. Tyrknesk stjórnvöld hafa neitað að tjá sig um málið að öðru leyti en því að það sé lagalegs eðlis.
Starfsmenn blaðsins, sem er einn örfárra starfandi miðla sem enn þora að gagnrýna Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta, eru sakaðir af embætti saksóknara um að styðja kúrdíska uppreisnarmenn og stuðningsmenn klerksins Fethullah Gulen, sem stjórnvöld fullyrða að standi að baki valdaránstilrauninni í júlí.
„Jafnvel þótt framkvæmdastjórar Cumhuriyet og blaðamenn séu fangelsaðir mun blaðið okkar halda áfram að berjast fyrir lýðræði og frelsi allt til endaloka,“ sagði í ögrandi leiðara sem birtur var í blaðinu í dag. Þar er lýst handtöku starfsmannanna og tilraunum yfirvalda til að stöðva útgáfu blaðsins.
Ríkisrekna fréttastofan Anadolu segir rannsóknina á Cumhuriyet m.a. beinast gegn ásökunum um að blaðið hafi fylgt stefnu Gulens og stuðningsmanna með því að birta fréttir sem ætlað hafi verið að skapa óreiðu og gera landið óstjórnhæft.
Forsvarsmenn Cumhuriyet segjast hins vegar þvert á móti ítrekað hafa varað við þeirri hættu sem lýðveldinu Tyrklandi stafaði af hreyfingu Gulen, sem vilji afnema aðskilnað ríkis og trúarbragða. Sagðist blaðið hafa hafa í gegnum tíðina sætt ásökunum saksóknara og dómara sem styddu stefnu Gulen.
Alls hafa þrettán af ritstjórn Cumhuriyet verið handteknir og segja yfirvöld rannsóknina einnig beinast gegn þremur starfsmönnum blaðsins til viðbótar, sem ekki eru í landinu.
Can Dundar, fyrrverandi ritstjóri Cumhuriyet, var handtekinn í fyrra og dæmdur sekur um að birta ríkisleyndarmál, en blaðið fjallaði m.a. um stuðning tyrkneskra yfirvalda við uppreisnarmenn í Sýrlandi. Mál Dundars vakti hörð mótmæli mannréttindasamtaka og stjórnvalda á Vesturlöndum, sem lýstu yfir áhyggjum af versnandi ástandi mannréttindamála undir stjórn Erdogans.
Anadolu segir ásakanirnar nú m.a. snúa að því að Dundar hafi fundað með saksóknurum vinveittum Gulen og blaðið hafi í kjölfarið birt frásagnir af spillingarmálum stjórnar Erdogan, sem byggðar hafi verið á fullyrðingum stuðningsmanna Gulen.
þetta er ekki í fyrsta sinn sem tyrknesk stjórnvöld herða tökin á fjölmiðlum í landinu, en frá því að valdaránstilraunin var gerð hefur 170 dagblöðum, tímaritum, sjónvarpsstöðvum og fréttastofum verið gert að hætta útgáfu og útsendingum.