Lögreglumenn skotnir úr launsátri

AFP

Tveir lögreglumenn voru skotnir til bana í Urbandale og í Des Moines í Iowa í nótt. Að sögn lögreglu er eins og þeir hafi báðir verið vegnir úr launsátri. 

Lögreglan í Urbandale fékk tilkynningu um skothvelli um eitt í nótt á gatnamótum 70. strætis og Aurora Avenue. Þegar þangað kom fundu þeir vinnufélaga sem hafði verið skotinn.

Lögreglumenn frá Des Moines, sem er austur af Urbandale, voru kallaður út til að veita aðstoð en um 1.30 fannst annar lögreglumaður skotinn til bana í um fimm mínútna fjarlægð frá þeim stað sem sá fyrri fannst skotinn. Báðir létust af völdum sára sinna.

New York Times hefur eftir lögreglunni að ekkert bendi til þess að lögreglumennirnir hafi átt í samskiptum sín á milli, en þeir hafi verið skotnir með köldu blóði í bílum sínum. Allt sé á huldu um hver hafi framið morðin en allt bendi til þess að þeir hafi verið vegnir úr launsátri.

 

mbl.is