11 þingmenn handteknir í Tyrklandi

Utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, kallaði sendinefnd Tyrkja í Þýskalandi á sinn fund í morgun og gagnrýndi aðgerðir tyrkneskra stjórnvalda, en leiðtogar helstu stjórnarandstöðuflokkanna úr röðum Kúrda og fleiri þingmenn voru handteknir í nótt. 

Allt virðist vera á suðupunkti í Tyrklandi, en snemma í morgun sprakk bílsprengja fyrir utan lögreglustöð í borginni Diyarbakir. Að minnsta kosti níu létust og rúmlega 100 særðust. Talið er að PKK standi á bak við tilræðið, en stjórnmálaflokkurinn er bannaður í Tyrklandi og skilgreindur sem hryðjuverkasamtök.

AFP

Stjórnvöld í Tyrklandi hafa lokað aðgangi landsmanna að samfélagsmiðlum í morgun og virðist sem WhatsApp liggi alveg niðri. Þá hafa notendur Twitter, Facebook, YouTube og fleiri alþjóðlegra vefja lent í miklum erfiðleikum við að komast inn. 

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirm, hefur ekki viljað staðfesta það beint að netlokun sé í gildi en heimilt sé að grípa til slíkra ráðstafana til þess að tryggja öryggi landsmanna.

Hann segir að aðeins sé um tímabundna aðgerð að ræða og um leið og hættan sé liðin hjá verði ástandið eðlilegt að nýju.

AFP

Alls voru 11 þingmenn Lýðræðisflokks alþýðunnar (HDP), sem nýtur einkum stuðnings Kúrda í Tyrklandi, handtknir, þar á meðal leiðtogar flokksins, Figen Yuksekdag og Selahattin Demirtas.

Þingmennirnir verða dregnir fyrir dómara í Diyarbakir síðar í dag og þar verður ákveðið hvort þeim verður gert að dúsa áfram í fangelsi. 

AFP
mbl.is