Ástandið versnar dag frá degi

AFP

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, segir aðför tyrkneskra stjórnvalda að dómurum í landinu vera það alvarlegasta sem blasi við stöðu dómsvaldsins í heiminum í dag. Fjölmargir dómarar eru í haldi og samtök dómara bönnuð eftir að stjórnvöld gripu til harkalegra ráðstafana gagnvart fjölmörgum stéttum í kjölfar valdaránstilraunar í júlí. 

Hann mun hitta Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra að máli í dag þar sem hann fer yfir áhyggjur íslenskra dómara af starfssystkinum sínum í Tyrklandi.

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands.
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands.

Skúli segir að ástandið versni nánast dag frá degi í Tyrklandi og auðvitað snúi þetta ekki bara að dómurum, en þegar dómsvaldinu sé nánast hent út sé það mikið sjúkleikamerki að mati íslenskra dómara.

„Það getur ekkert eiginlegt lýðræði þrifist án þess að þar sé sjálfstætt dómsvald sem hægt er að bera traust til,“ segir Skúli og bætir við að það sé langt frá því í Tyrklandi núna.

Að sögn Skúla sendi Dómarafélag Íslands bréf til Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra, Lilju Alfreðsdóttur utanríkisráðherra og Ólafar Nordal innanríkisríkisráðherra í lok ágúst þar sem óskað er eftir fundi með ráðherrunum vegna þeirrar meðferðar sem dómarar í Tyrklandi hafa orðið fyrir eftir að tilraun var gerð til valdaráns í landinu um miðjan júlí.

Með þessu var dómarafélagið að fylgja á eftir ályktun frá Dómarafélagi Norðurlanda þar sem stjórnvöld viðkomandi landa eru hvött til þess að beita sér gegn þeim „hreinsunum“ sem séu að eiga sér stað í tyrknesku dómskerfi. 

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan.
Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan. AFP

Skúli segir að Dómarafélag Íslands vonist til þess að fá í dag upplýsingar um formleg viðbrögð íslenskra stjórnvalda og að sendiherra Tyrklands á Íslandi fái þau skilaboð frá íslenskum stjórnvöldum að þau hafi fengið þessar ábendingar frá dómurum og þau hafi verulegar áhyggjur af stöðu mála í Tyrklandi.

„Það mætti líka hugsa sér að íslensk stjórnvöld kvæðu sterkar að orði og beindu skilaboðum beint til æðstu stjórnvalda í Tyrklandi. Þau myndu einnig lýsa því yfir að taka málið upp á þeim vettvangi þar sem íslensk og tyrknesk yfirvöld starfa saman, það er Evrópuráðinu til að mynda,“ segir Skúli.

Frétt mbl.is: Lilja ræddi við Çavuşoğlu og Er­dog­an

Meðal þeirra dómara sem hafa verið handteknir í Tyrklandi er formaður samtaka dómara í landinu, en samtökin hafa verið lögð niður af stjórnvöldum og eru skilgreind sem hryðjuverkasamtök af tyrkneskum yfirvöldum í dag.

Að sögn Skúla var formaðurinn handtekinn fyrir að hafa rætt við annan stjórnarmann í alþjóðasamtökum dómara.

Skúli segir að áhyggjur Dómarafélags Íslands snúi bæði að aðför yfirvalda að réttarkerfinu og að stöðu starfssystkina í Tyrklandi.

Tyrkneskir dómarar hafi unnið náið með íslenskum dómurum og sameiginlegt markmið þeirra sé að tryggja réttaröryggi og sjálfstæði dómara. Eins og staðan sé í Tyrklandi í dag sé langt í land að þessi markmið fái hljómgrunn hjá þarlendum yfirvöldum.

mbl.is