Hve mikið getum við alið af kynbættum norskum laxi í íslenskum fjörðum án þess að taka óásættanlega áhættu fyrir íslensku laxastofnana? Svarið við þeirri spurningu fæst með áhættumati, segir forstjóri Hafrannsóknastofnunar.
Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, telur að mögulegt sé að vinna áhættumat vegna áforma um aukið laxeldi í sjó við strendur Íslands. Með slíku væri hægt að meta áhrif eldis á villta laxastofna og lífríkið í heild.
Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Eins og fram hefur komið eru uppi stórhuga fyrirætlanir um gríðarlega aukningu í fiskeldi í innfjörðum landsins. Þrjú fyrirtæki vinna nú að því að fá leyfi fyrir auknu fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og þar af er lax stærstur hluti áætlaðs eldisfisks.
Forsenda leyfisveitinga til slíkrar starfsemi í sjó er að framkvæmt verði burðarþolsmat sem kannar strauma, seltu og súrefni á svæðinu. Tilgangur slíks mats er að kanna hversu mikið Djúpið þolir áður en eldið hefur áhrif á vatnsgæðin.
Það sem burðarþolsmat svarar ekki er áhrif eldisins á lífríkið, og þar með talið villta laxastofna. Sigurður Guðjónsson tekur undir það að erfðablöndun geti verið óafturkræf og sé sú hætta sem helst steðji að lífríkinu af fiskeldi.
Sjá frétt 200 mílna: Norðmenn eru umhverfissóðar
„Að mínu viti þarf að fara fram ákveðið áhættumat. Hve mikið getum við alið af kynbættum norskum laxi í íslenskum fjörðum án þess að taka óásættanlega áhættu fyrir íslensku laxastofnana?“ spyr Sigurður. „Ég held að það sé hægt að búa til slíkt mat.“
Sigurður bindur vonir við nefnd sem tekur til starfa innan skamms við heildarstefnumótun í fiskeldi, en tekur fram að vöxtur í laxeldi í sjó hafi verið vanmetinn og seint við brugðist af hálfu hins opinbera.
„Ég vonast til að þeir leiti til fagstofnana um góð ráð og ef svo fer held ég að útkoman geti orðið alveg þokkaleg,“ segir hann.
Óskað hefur verið eftir tilnefningum í nefndina, en hún verður skipuð fulltrúum frá ráðuneytum og hagsmunaaðilum. Nefndina munu skipa formaður og nefndarfulltrúi sem skipaðir verða af ráðherra án tilnefningar, einn frá Landssambandi veiðifélaga, einn frá umhverfisráðuneyti og tveir frá Landssambandi fiskeldisstöðva.