„Við vorum að funda um verðlagsmálin, bæði í bolfiskinum og uppsjávarfiskinum. Það svona þokaðist þannig að menn ætla aðeins að skoða málin á morgun og hittast klukkan fjögur,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, í samtali við mbl.is en fundur fór fram í kjaradeilu sjómanna í dag.
„Ég held að það verði að fara að koma einhver niðurstaða í þau mál. Þetta fer nú að styttast,“ segir Guðmundur en ótímabundið verkfall sjómanna hefst 10. nóvember klukkan 23.00. Margt annað þurfi að ræða. „Það er svona jákvæður andi yfir þessu skulum við segja,“ segir hann spurður hvort það sé sem sagt hreyfing á málum.
„Verðlagsmálin eru auðvitað bara hluti af þessu og við erum ekkert farin að setjast yfir eitt eða neitt af því sem bíður. Það verður að segjast eins og er að maður er svolítið undrandi að menn hafi látið helgina detta niður dauða,“ segir Guðmundur. Ríkissáttasemjari hafi ennfremur boðað deiluaðila til fundar klukkan 10.00 á miðvikudaginn til þess að taka stöðuna.
„Ég vænti þess að það sjái fyrir endann á þessum verðlagsmálum á morgun. Svo hægt sé að fara að snúa sér að öðru,“ segir hann. „Þegar maður getur brosa út í annað þá er maður nokkuð góður.“