Möguleiki á tímabundinni frestun

Heiðrún Lind Marteinsdóttir segir unnið að lausn á kjaradeilu sjómanna. …
Heiðrún Lind Marteinsdóttir segir unnið að lausn á kjaradeilu sjómanna. Fundað verður í dag og á morgun, en boðuð vinnustöðvun hefst á fimmtudag náist ekki sættir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framkvæmdastjóri SFS segir kjaramál ekki snúast eingöngu um kröfur sjómanna en báðar hliðar hafi lagst á árarnar undanfarna daga í átt að farsælli lausn. Stjórnarmaður í Sjómannafélagi Íslands segir tímabundna verkfallsfrestun hafa verið rædda en kjöt þurfi á beinin til að slíkt verði réttlætt.

Nú eru rúmir tveir sólarhringar í boðað verkfall sjómanna. Ef af verður hefja sjómenn vinnustöðvun kl. 23 að kvöldi fimmtudagsins 10. nóvember.

Stíf fundarhöld um verð til tengdra aðila

Fundað hefur verið stíft undanfarna daga og er næsti sáttafundur boðaður í dag kl. 16.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), segir viðræður ganga ágætlega þótt nær einvörðungu hafi verið rætt um fiskverðsmál hingað til.

„Í þeim samningum sem undirritaðir voru í sumar og sjómenn síðan felldu var gert ráð fyrir því að fiskverðsmál héldust óbreytt miðað við síðustu kjarasamninga, en gerð um það sérstök bókun að leitað yrði frekari útfærslna í þeim efnum næstu tvö árin. Það setur óhjákvæmilega strik í reikninginn að hverfa frá því tveggja ára plani og reyna að afgreiða málið í heild sinni nú. Það er að mörgu að huga, en með góðum vilja tel ég raunhæft að ná samkomulagi um þetta tilgreinda málefni,“ segir Heiðrún.

„Kjaramálin snúast ekki einvörðungu um kröfur sjómanna“

Hún segir útlitið bærilegt þótt skammur tími sé til stefnu. „Við vonum auðvitað að ekki verði af þessari vinnustöðvun sjómanna, en við erum þó við öllu búin. Kjaramál snúast ekki einvörðungu um kröfur sjómanna, heldur einnig þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá. Lausn hlýtur því alltaf að felast í því að hugað sé að sjónarmiðum beggja hliða. Beri menn ekki gæfu til þess, er verkfall óumflýjanlegt.  Viðræður umliðna daga hafa þó einkennst af því að báðar hliðar eru að leggjast á árarnar í leit að farsælli lausn.“

Heiðrún tekur fram að þó svo eitthvað þokist í samningaátt varðandi fiskverð séu talsvert fleiri mál sem bíða afgreiðslu. Milli samningafunda séu menn að vinna sína heimavinnu, en ljóst sé að naumur tími er til stefnu til að lenda málum. Þá sé áhrifa farið að gæta utan landsteinanna.

Erlendir kaupendur áhyggjufullir

„Við erum meðvituð um að erlendir kaupendur eru áhyggjufullir og spyrjast fyrir um stöðu þessara mála hjá sölufyrirtækjum. Í einhverjum mæli eru þeir farnir að leita fanga í því sambandi. Það er auðvitað slæmt ef deilan er farin að hafa áhrif á erlenda markaði, en við vonum það besta og höldum áfram viðræðum við sjómenn um ásættanlega lendingu,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Vinnustöðvun sjómanna hefst eftir rúma tvo sólarhringa að óbreyttu.
Vinnustöðvun sjómanna hefst eftir rúma tvo sólarhringa að óbreyttu. mbl.is/Árni Sæberg

Bergur Þorkelsson, stjórnarmaður í Sjómannafélagi Íslands, tekur undir það að fiskverðin hafi verið til umræðu undanfarna daga.

„Það hefur verið rætt um verðmyndun á bolfiski til skyldra aðila. Þær viðræður eru komnar langt á veg og menn virðast vera orðnir sáttir við aðferðafræðina þar,“ segir hann.

Viðræður sem snúa að verðmyndun á uppsjávarfiski segir Bergur hafa komist á skrið í gær og aðilar báðum megin borðs séu ásáttir að stefna í ákveðna átt í þeim efnum. Frekari útfærslur varðandi verð á uppsjávarfiski liggi hins vegar ekki fyrir og til standi að funda um þau mál nú síðar í dag.

Mörg mál eftir

Önnur mál hafi hins vegar ekki verið rædd. „Menn eru að reyna að finna ásættanlega lendingu í verðmálum áður en önnur mál eru opnuð – og þau eru mörg.“

Um framvinduna segir Bergur ekki hægt að segja neitt til um á þessu stigi, enda sé ekki mögulegt að leggja mat á horfur í einstökum samningsmálum fyrr en þau koma í umræðuna.

„Ef það gerist eitthvað af viti í dag og menn opna fyrir umræðuna á hin málin á morgun, og ná einhverri lendingu þar, þá er kannski hægt að ná samkomulagi um tímabundna frestun til að klára hin málin. Aðilar hafa rætt um mögulega frestun. En þá þarf líka að vera nógu mikið kjöt á beinunum til þess að réttlæta slíkt,“ segir Bergur Þorkelsson.

mbl.is