Heim úr Barentshafi ef verkfall verður

Þerney RE er að veiðum í Barentshafi.
Þerney RE er að veiðum í Barentshafi.

Tveir af frystitogurum HB Granda eru nú að veiðum í rússneskri lögsögu í Barentshafi.  Ef það kemur til boðaðs verkfalls sjómanna klukkan 23 í kvöld verða veiðafærin tekin um borð og siglt áleiðis að svokölluðum tékkpunkti inn og út úr rússnesku lögsögunni.

Á vef HB Granda kemur fram að tveggja sólarhringa sigling sé þangað frá þeim stað sem skipin eru nú á veiðum. Reikna má með því að siglingin til Reykjavíkur taki um eina viku.

„Ef verkfall skellur á  verður híft og stefnan tekin suður og í átt til lands,“ er haft eftir Kristni Gestssyni, skipstjóra á Þerney RE. Auk Þerneyjar er Örfisisey RE að veiðum á svipuðum slóðum.

Hann bætir við að túrinn verði ekki fullur hjá þeim ef af verkfallinu verður.

mbl.is