„Við erum búnir að tala saman síðan hálftvö í dag og það hefur ýmislegt náðst að hreinsa út. Við höfum náð ágætis árangri í viðræðunum,“ segir Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.
Samningaviðræður í kjaradeilu sjómanna hafa staðið yfir í allan dag hjá ríkissáttasemjara.
Guðmundur segir að enn séu atriði óleyst sem menn sitja yfir og reyna að ráða fram úr. „Við höldum áfram að kasta þessu á milli okkar fram á kvöld. Það er ótímabært að leggja mat á það hvort þetta endar í verkfalli eða ekki. Þetta getur farið í báðar áttir.“
Verkfall sjómanna hefst klukkan 23 í kvöld ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma.
Frétt mbl.is: Slitnaði upp úr sáttafundi í gær
Aðspurður vill Guðmundur ekki meina að líkurnar á verkfalli hafi aukist.
„Það er oft þannig að þegar tíminn nálgast fara menn kannski að tala öðruvísi saman og tala meira í lausnum. Báðir aðilar gera sér grein fyrir því að það er mikil ábyrgð að fara í verkfall og stundum þarf þessa pressu til að menn klári hluti sem eru kannski búnir að vera mjög flóknir í marga mánuði," segir hann.