„Við mætum til fundar hjá Ríkissáttasemjara á morgun. Það er búið að boða okkur til fundar þar klukkan fjögur. Bara í eitthvert spjall en við ætlum að mæta með samninganefndina með okkur ef eitthvað skyldi fara í gang. Það er svo sem aldrei að vita. En það er ekkert í gangi,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við mbl.is. Verkfall sjómanna hefur staðið yfir frá því á fimmtudaginn.
Spurður hvort eitthvað nýtt hafi verið lagt fram segir hann svo ekki vera. „Menn eru bara rólegir ennþá.“ Hins vegar sé jákvætt að fundað verði á morgun. Vélstjórar hafa samið við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) með fyrirvara um samþykkt en samninganefnd þeirra mætir einnig til fundarins á morgun. „Við vitum ekki alveg hvernig sá samningur er en við reiknum með að fá að sjá hann á morgun,“ segir Valmundur.