Um 150 manns sóttu fund í Sjómannastofunni Vör í kvöld, þar sem félögum í Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur (SVG) var kynntur samningur Sjómannasambands Íslands við útvegsmenn.
Einar Hannes Harðarson, formaður SVG, sagði í samtali við Morgunblaðið eftir fundinn að hann hefði óskoraðan stuðning félagsmanna en SVG dró sig út úr samninganefnd Sjómannasambandsins áður en skrifað var undir samninga í gærkvöldi.
Einar sagði samninganefnd félagsins ekki myndu hvika frá kröfum sínum, en vildi ekki upplýsa hverjar þær væru. „Ég bíð eftir símtali frá Jens Garðari [formanni SFS],“ sagði hann spurður um framhaldið.
SVG og Sjómannafélag Íslands, sem hvorugt hefur lokið samningum, eru með rúmlega þriðjung undirmanna á fiskiskipaflotanum á félagaskrá.
Jens Garðar Helgason sagði síðdegis að hann hefði varið deginum í Grindavík og átt gott samtal við menn þar. „Við erum að ræða saman og kasta hugmyndum á milli okkar,“ sagði hann.