Fulltrúar Sjómannafélags Íslands skrifuðu ekki undir nýjan kjarasamning í kvöld og hyggjast kanna sitt bakland á morgun. Fulltrúar Sjómannafélags Grindavíkur gengu af fundi og afturkölluðu umboð sitt til Sjómannasambands Íslands á sama tíma.
Þetta hefur mbl.is eftir áreiðanlegum heimildum.
Samtals telja félagsmenn Sjómannafélags Íslands annars vegar og Sjómannafélags Grindavíkur hins vegar um 40% allra sjómanna á landinu.
Samningar hafa þó náðst milli SFS og Sjómannasambands Íslands annars vegar og Verkalýðsfélags Vestfirðinga hins vegar.
Sjá frétt: Samningar náðst að hluta.
Fulltrúar Sjómannafélags Íslands vildu ekki skrifa undir nýjan samning við SFS að svo komnu máli og munu í framhaldinu skoða hvernig þeirra bakland liggur varðandi þann samning sem nú er á borðinu.
Ekki liggur fyrir hver afstaða Sjómannafélags Grindavíkur er á þessari stundu.