Formaður Sjómannafélags Íslands segir samninganefnd Sjómannasambands Íslands hafa rofið samstöðu sjómanna eftir leynimakk með fulltrúum útgerða án aðkomu Sjómannafélagsins. Nýi samningurinn skerði veikindarétt sjómanna um helming.
Sjá frétt: Fulltrúar tveggja félaga skrifuðu ekki undir.
„Við erum bara í verkfalli. Viðræðunum var ekki slitið en við treystum okkur ekki til að skrifa undir samkomulagið sem Sjómannasambandið skrifaði undir,“ segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands.
Sjómannasamband Íslands er regnhlífarsamtök fyrir verkalýðsfélög sjómanna vítt og breitt um landið. Sjómannafélag Íslands er fjölmennasta verkalýðsfélag sjómanna á landinu og stendur utan þeirra samtaka, en gengu með Sjómannasambandinu til viðræðna við fulltrúa útgerðarmanna um nýja kjarasamninga sjómanna. Að sögn Jónasar hafi öllu máli skipt að fulltrúar sjómannastéttarinnar stæðu saman í samningaviðræðunum.
Mikill misbrestur hafi hins vegar orðið þar á um helgina.
„Á laugardaginn fóru þeir Sjómannasambandsmenn í eitthvert leynimakk með útgerðarmönnum án þess að láta okkur vita. Ég sá í sjónvarpinu að Valmundur (Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands) hafði verið á einhverjum fundi með útgerðarmönnum. Ég hringdi í hann og spurði hvað þetta ætti eiginlega að fyrirstilla því við höfðum ekki hugmynd um þessa fundi. Þá varð hann nú hálfflóttalegur og svaraði litlu,“ segir Jónas.
Hann segir að í viðræðum við fulltrúa útgerðanna hafi öll samtök sjómanna fundað saman sem eitt með fulltrúum útgerðanna, en þegar fyrirsvarsmenn Sjómannafélagsins mættu til fundar í gær hafi þeim verið sagt að þeir skyldu sitja í öðru rými, aðskildir frá fulltrúum Sjómannasambandsins.
„Þá vissum við náttúrlega hvað væri um að vera. Það var eitthvert djöfulsins skítamakk í gangi,“ segir hann. „Þeir áttu nú erfitt með að halda sinni hjörð saman sjálfir og ég hélt það væri nú kannski út af því sem þetta var.“
Annað hafi komið á daginn þegar fulltrúum Sjómannafélagsins barst fullskapaður kjarasamningur sem forsvarsmenn Sjómannafélags Íslands höfðu þegar undirritað, án samráðs við fulltrúa Sjómannafélagsins, sem enn voru einangraðir í öðru rými hússins.
„Við lásum þennan samning yfir ásamt útgerðarmönnunum og þá kemur í ljós að það er búið að skerða veikindarétt sjómanna um helming. Það, ásamt mönnunarmálum á uppsjávarskipin, varð til þess að við skrifuðum ekki undir. Þeir eru búnir að skerða veikindarétt manna þar sem skiptikerfi eru um helming,“ bætir Jónas við.
Jónas segir textann hafa verið illskiljanlegan og hefðu hans menn því falast eftir nánari skýringum við yfirferðina. Fulltrúar útgerðanna „kjaftað þá í kaf“ án þess að gefa beint svar við því hvort um slíka skerðingu á veikindarétti væri að ræða.
„Við ræstum því lögmanninn okkar og hann staðfesti okkar skilning; þetta væri einfaldlega skerðing á veikindarétti sjómanna um helming,“ segir Jónas.
Hann segir sig og sína menn því hafa ákveðið að slíkt gætu þeir ekki kvittað upp á. „Og þar er þetta statt núna,“ segir hann.
Hann bendir á að Sjómanna- og verkalýðsfélag Grindavíkur hafi gengið frá samningaborðinu og afturkallað það umboð sem þeir höfðu gefið Sjómannasambandi Íslands fyrir sína hönd af sömu ástæðu.
„Stærsta félag innan Sjómannasambandsins er því ekki með í þessum samningi og við ekki heldur,“ segir Jónas.
Varðandi þær fréttir að sum skip haldi fljótlega til veiða eftir að samningar náðust að hluta segir Jónas stöðuna um margt flókna á þeim skipum þar sem Sjómannafélag Íslands eigi félagsmenn.
„Á þeim skipum þar sem við eigum einn eða tvo karla verða þeir líklega bara að láta sig hafa það að fara með. En þar sem við erum með meirihluta áhafnar verður ekkert farið. Það er bara þannig,“ segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands.