„Ekkert mun stöðva okkur“

Stjórnarandstöðublaðið Cumhuriyet birtir fréttir sem stjórnvöldum þykja óþægilegar.
Stjórnarandstöðublaðið Cumhuriyet birtir fréttir sem stjórnvöldum þykja óþægilegar. AFP

„Vinnan okkar er erfið. Álagið er mikið og ógnin er raunveruleg en ekkert mun stöðva okkur.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í aðsendri ritstjórnargrein tyrkneska stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet sem birtist í 37 þýskum dagblöðum í dag. Greinin birtist meðal annars í Spiegel Online, Die Welt, Die Zeit og Sueddeutsche Zeitung.

Greinin birtist á sama tíma og utanríkisráðherra Þýskalands Frank-Walter Steinmeier er í opinberri heimsókn í Tyrklandi.

Stjórn­ar­and­stöðublaðið Cum­huriyet hef­ur verið dug­legt við að birta frétt­ir sem þykja óþægi­leg­ar fyr­ir rík­is­stjórn for­set­ans Recep Tayyip Er­dog­an. Um mánaðamótin handtóku yf­ir­völd í Tyrklandi ritstjóra blaðsins Murat Sa­buncu og Akin Atalay sem situr í stjórn blaðsins auk átta starfsmanna. Yfirvöld saka blaðið um að tengjast Kúrdíska uppreisnarhernum PKK og múslimaklerknum Fethullah Gulen 

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, til hægri tekur í hönd utanríkisráðherra …
Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, til hægri tekur í hönd utanríkisráðherra Þýskalands Frank-Walter Steinmeier, á fundi þeirra í dag. AFP

Frétt mbl.is: Yf­ir­maður Cum­huriyet hand­tek­inn

Handtökunni var harðlega mótmælt í byrjun nóvember. Á forsíðu blaðsins eftir handtökuna stóð í fyr­ir­sögn á forsíðu blaðsins að „gef­ast ekki upp“.

Frétt mbl.is: Heita því að „gef­ast ekki upp“

Frá því valdaránstilraun var gerð í landinu í júlí hefur blaðið þurft að berjast fyrir frelsi sínu. Það sama á við fjölmarga aðra fjölmiðla og opinbera starfsmenn í landinu t.d. dómara og lögreglumenn.   

„Við sem þegnar landsins krefjumst tjáningar- og prentfrelsis sem er ómissandi í lýðræðisríki.“ Jafnframt segir í greininni: „Við erum grátklökk yfir skilaboðum ritstjóra okkar, Murat Sabuncu, sem hann sendi úr fangelsi. Þetta eru meginreglur okkar allra sem störfum á blaðinu Cumhuriyet: Við munum einungis beygja okkur fyrir lesendum og fólkinu okkar.

100 blaðamenn handteknir 

Staðan í Tyrklandi hefur mikil áhrif í Þýskalandi. Talið er að í landinu búi yfir þrjár milljónir manna sem eru af tyrkneskum uppruna. 

Fyrrverandi ritstjóri stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet, Can Dundar, er talinn hafa flúið til Þýskalands fyrr á árinu. Hann var dæmd­ur í fang­elsi í maí síðastliðinn fyr­ir að birta rík­is­leynd­ar­mál.

Frá valdaránstilrauninni í júlí hafa yfir 100 blaðamenn verið handteknir og yfir 170 fjölmiðlum bæði dagblöðum og útvarpsstöðvum verið lokað, samkvæmt tyrknesku blaðamannasamtökunum. 

mbl.is