„Vinnan okkar er erfið. Álagið er mikið og ógnin er raunveruleg en ekkert mun stöðva okkur.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í aðsendri ritstjórnargrein tyrkneska stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet sem birtist í 37 þýskum dagblöðum í dag. Greinin birtist meðal annars í Spiegel Online, Die Welt, Die Zeit og Sueddeutsche Zeitung.
Greinin birtist á sama tíma og utanríkisráðherra Þýskalands Frank-Walter Steinmeier er í opinberri heimsókn í Tyrklandi.
Stjórnarandstöðublaðið Cumhuriyet hefur verið duglegt við að birta fréttir sem þykja óþægilegar fyrir ríkisstjórn forsetans Recep Tayyip Erdogan. Um mánaðamótin handtóku yfirvöld í Tyrklandi ritstjóra blaðsins Murat Sabuncu og Akin Atalay sem situr í stjórn blaðsins auk átta starfsmanna. Yfirvöld saka blaðið um að tengjast Kúrdíska uppreisnarhernum PKK og múslimaklerknum Fethullah Gulen.
Frétt mbl.is: Yfirmaður Cumhuriyet handtekinn
Handtökunni var harðlega mótmælt í byrjun nóvember. Á forsíðu blaðsins eftir handtökuna stóð í fyrirsögn á forsíðu blaðsins að „gefast ekki upp“.
Frétt mbl.is: Heita því að „gefast ekki upp“
Frá því valdaránstilraun var gerð í landinu í júlí hefur blaðið þurft að berjast fyrir frelsi sínu. Það sama á við fjölmarga aðra fjölmiðla og opinbera starfsmenn í landinu t.d. dómara og lögreglumenn.
„Við sem þegnar landsins krefjumst tjáningar- og prentfrelsis sem er ómissandi í lýðræðisríki.“ Jafnframt segir í greininni: „Við erum grátklökk yfir skilaboðum ritstjóra okkar, Murat Sabuncu, sem hann sendi úr fangelsi. Þetta eru meginreglur okkar allra sem störfum á blaðinu Cumhuriyet: Við munum einungis beygja okkur fyrir lesendum og fólkinu okkar.
Staðan í Tyrklandi hefur mikil áhrif í Þýskalandi. Talið er að í landinu búi yfir þrjár milljónir manna sem eru af tyrkneskum uppruna.
Fyrrverandi ritstjóri stjórnarandstöðublaðsins Cumhuriyet, Can Dundar, er talinn hafa flúið til Þýskalands fyrr á árinu. Hann var dæmdur í fangelsi í maí síðastliðinn fyrir að birta ríkisleyndarmál.
Frá valdaránstilrauninni í júlí hafa yfir 100 blaðamenn verið handteknir og yfir 170 fjölmiðlum bæði dagblöðum og útvarpsstöðvum verið lokað, samkvæmt tyrknesku blaðamannasamtökunum.