Sjómannafélag Íslands skrifaði undir nýjan samning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi nú rétt í þessu.
Eins og fram kom í fyrri frétt 200 mílna kom ekki til greina af hálfu forsvarsmanna Sjómannafélagsins að samþykkja óbreytt orðalag þess samnings sem undirritaður hafði verið milli SFS og Sjómannafélags Íslands. Kom það aðallega til af því að þeir töldu slysa- og veikindarétt sjómanna skertan til muna í nýja samningnum og við það gátu menn ekki unað.
Sú grein sem um ræðir var felld burt í samningi þeim sem Sjómannafélag Íslands hefur nú undirritað við SFS og slysa- og veikindaréttur þeirra félagsmanna helst því óbreyttur frá því sem var.
Að auki var fellt burt ákvæði sem gerði fyrsta brot útgerða á ákvæðum samningsins refsilaust.
Að sögn Bergs Þorkelssonar, stjórnarmanns í Sjómannafélagi Íslands, var því komin ásættanleg niðurstaða. Hann sagði sig og sína menn í Sjómannafélagi Íslands hafa verið í þröngri stöðu nú þegar hluti skipaflotans er í þann mund að halda á miðin eftir undirritun samnings milli Sjómannasambands Íslands og SFS nú á sunnudag, en menn gátu sæst á þessi málalok að sinni sökum þess að veikindaréttur sjómanna helst óbreyttur fyrir þeirra félagsmenn.
Nýi samningurinn verður borinn undir félagsmenn í almennri kosningu sem stendur til 14. desember, en verkfalli er frestað þangað til.
Félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands halda því brátt til veiða eftir að hafa verið í vinnustöðvun síðan á fimmtudag.