Tilkynnir um framboð á miðvikudag

Emmanuel Macron var efnahagsmálaráðherra í ríkisstjórn Francois Hollande.
Emmanuel Macron var efnahagsmálaráðherra í ríkisstjórn Francois Hollande. AFP

Fregnir herma að Emmanuel Macron, fyrrverandi efnahagsmálaráðherra Frakklands, hyggist tilkynna um framboð sitt til forseta á miðvikudag. Hinn 38 ára Macron hefur ekki farið dult með metnað sinn til að setjast að í Elysee-höll frá því hann sagði af sér embætti.

Macron er sagður hyggjast nýta sér þá djúpu gjá sem myndast hefur á vinstri væng franskra stjórnmála. Í apríl sl. stofnaði stjórnmálahreyfinguna En Marche, „Á hreyfingu“, og sagðist vilja tala fyrir nýjum hugmyndum sem væru hvorki til vinstri né hægri.

Félagar En Marche telja nú 96.000 og framlög til flokksins 2,7 milljónir evra.

Erfitt er að spá fyrir um möguleika Macron en samkvæmt könnun sem kom út í dag sögðu 38% þátttakenda að hann yrði góður forseti. 56% sögðu það sama um Alain Juppe, fyrrverandi forsætisráðherra.

Sitjandi forseti, Francois Hollande, nýtur minni vinsælda en nokkur forseti Frakklands frá seinni heimstyrjöld. Hann hefur sagt að hann muni gefa sér fram í desember til að ákveða hvort hann sækist eftir endurkjöri.

mbl.is