Öllum verkföllum sjómanna frestað

Öllum verkfallsaðgerðum sjómanna hefur nú verið frestað.
Öllum verkfallsaðgerðum sjómanna hefur nú verið frestað. mbl.is/Árni Sæberg

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur (SVG) undirrituðu nýjan kjarasamning nú í kvöld og gildir hann til tveggja ára. Efni samningsins er sambærilegt því sem samið var um við Sjómannasamband Íslands, en SVG samdi einnig um sértaka línuuppbót að fjárhæð 120.000 kr. til handa tilgreindum sjómönnum á línubátum, að því er kemur fram í tilkynningu SFS.

Þá var einnig áréttaður sérstakur forgangur á endurskoðun fjarskiptamála, með það að augnamiði að lækka fjarskiptakostnað sjómanna. 

Fyrr í dag undirrituðu SFS og Sjómannafélag Íslands einnig kjarasamning, sambærilegan þeim sem Sjómannasamband Íslands hafði áður gert.

Verkfalli félagsmanna Sjómannafélags Íslands var frestað kl. 15.00 í dag og verkfalli SVG er frestað frá og með morgundeginum, 16. nóvember kl. 14.00.

Öllum verkföllum sjómanna hefur nú verið frestað. Kynningar á gerðum kjarasamningum og atkvæðagreiðslur fara nú fram.

mbl.is