Lögreglumaður í Minnesota sem skaut blökkumanninn Philando Castile til bana í júlí hefur verið ákærður fyrir manndráp. Kærasta Castile sem sat við hliðina á honum í bíl þeirra þegar hann var skotinn sendi atvikið út í beinni útsendingu á Facebook í gegnum snjallsíma sinn.
Auk drápsins á Castile er lögreglumaðurinn Jeronimo Yanez ákærður fyrir að hleypa af hættulegu vopni og að hafa stefnt öryggi Diamond Reynolds, kærustu Castile, og fjögurra ára gamallar dóttur hennar sem einnig var í bílnum í hættu.
Samkvæmt málsskjölum stöðvaði Yanez parið vegna þess að það leit út eins og fólk sem hafði framið rán í kjörbúð í grenndinni og vegna þess að bremsuljós á bílnum virkaði ekki. Castile upplýsti lögreglumanninn um að hann væri með byssu í bílnum og bað Yanez hann um að teygja sig ekki eftir henni.
Skömmu síðar skaut lögreglumaðurinn Castile sjö skotum þar sem hann sat enn í ökumannssætinu með beltið spennt. Kærasta hans segir að hann hafi verið að teygja sig í veskið sitt en ekki byssuna.
Upptakan af atvikinu vakti mikla hneykslan í Bandaríkjunum og varð drápið á Castile tilefni mótmæla en það átti sér stað daginn eftir annað dráp lögreglumanns á blökkumanni í Baton Rouge í Lúisíana.