Trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga hafnar nýjum kjarasamningi sem undirritaður var á mánudaginn fyrir sjómenn í félaginu. Eftir kynningu samningsins var ljóst að sá tæknilegi ómöguleiki væri kominn upp að undirritað samningsskjal væri í raun ekki kjarasamningur félagsins. Auk þess var ljóst að upphafshækkanir í kauptryggingu og fatapeningum voru ekki þær sömu og í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands. Munaði þar tugi prósenta eða allt að 26% sem sjómenn í Verk Vest fá ekki verði samningurinn samþykktur.
Frá þessu er greint á heimasíðu verkalýðsfélagsins, en trúnaðarráðið fundaði í gær og var lögð fram sú tillaga að ráðið myndi hafna samningnum vegna þeirra ágalla sem á honum eru. Var tillagan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.
Undirritaðir kjarasamningar eru bindandi samkvæmt lögum og þarf atkvæðagreiðsla að fara fram. Tillaga trúnaðarráðs hefur þar engin bindandi áhrif á samninginn. Nú tekur því við atkvæðagreiðsla, en félagið ætlar ekki að halda formlega kynningarfundi.
Félagsmönnum verða á næstu dögum sem kjörgögn, en fram kemur í frétt Verkvest að verði samningurinn samþykktur sé ljóst að komin sé upp sú staða að sjómenn á Vestfjörðum eiga ekki lengur sinn sjálfstæða kjarasamning. Verði samningurinn felldur hefst verkfall að nýju klukkan átta þann 14. desember.