Hjartahlýr afrekshundur

Elma situr á milli feðganna Tinds og Skrúðs sem er …
Elma situr á milli feðganna Tinds og Skrúðs sem er henni á vinstri hönd. Á borðinu fyrir framan þau er hluti verðlaunanna sem feðgunum áskotnuðust á hundasýningu Hundaræktunarfélags Íslands um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bros­mild­ur, lág­fætt­ur og loðinn. Kom­inn af létt­asta skeiði en læt­ur ekki deig­an síga, ver tíma sín­um í að láta öðrum líða vel og hef­ur gert krafta­verk í lífi ein­hverfr­ar stúlku. Lík­lega hafa fáir hans teg­und­ar setið jafn mikið á skóla­bekk og svo er hann líka marg­fald­ur verðlauna­hafi.

Þetta er hann Stefs­stells-Skrúður, 10 ára gam­all ís­lensk­ur fjár­hund­ur, sem kom, sá og sigraði á hunda­sýn­ingu Hunda­rækt­un­ar­fé­lags Íslands um síðustu helgi þar sem hann fékk sjö verðlaun, þeirra á meðal fyr­ir að vera besti hund­ur og besti öld­ung­ur sýn­ing­ar­inn­ar. Eig­andi Skrúðs, Elma Ca­tes, seg­ir hund­inn í al­ger­um sér­flokki. „Frá upp­hafi hef­ur hann náð mjög sterkri teng­ingu við fólk, sér í lagi börn með sérþarf­ir. Hann pass­ar vel upp á þau, það er eins og hann myndi sér­stakt sam­band við þau, þar sem börn og hund­ur tjá sig án orða,“ seg­ir Elma.

Þau skilja hvort annað

Eitt þeirra barna sem hafa notið góðs af þess­um eig­in­leik­um Skrúðs er Elsa Lind, barna­barn Elmu. Hún er með ódæmi­gerða ein­hverfu og tjáði sig lítið fram­an af. Frá því að fund­um þeirra bar fyrst sam­an fylgdi Skrúður henni við hvert fót­mál og svaf hjá henni um næt­ur. Í byrj­un skóla­göngu Elsu Lind­ar nutu kenn­ar­arn­ir liðsinn­is Skrúðs til að ná til henn­ar og hann var henni stoð og stytta í lestr­ar­nám­inu, þar sem hann lagðist hjá henni og hlustaði á hana lesa. Krakk­arn­ir í bekkn­um hrif­ust af þess­um mekt­ar­hundi, hann styrkti Elsu Lind fé­lags­lega og Elma seg­ir að hann hafi átt stór­an þátt í því að hún byrjaði að tala níu ára göm­ul. „Þessi vinátta er al­veg ein­stök,“ seg­ir Elma. „Þau skilja hvort annað full­kom­lega.“

Gerð var stutt heim­ild­ar­mynd um vináttu Elsu Lind­ar og Skrúðs sem heit­ir Hún, hund­ur­inn og heim­ur­inn og hana má sjá hér fyr­ir neðan.

Vin­ur í raun

Fleiri börn eru svo lán­söm að njóta vináttu Skrúðs, því á heim­ili Elmu eru nú sex fóst­ur­börn, þar af fjög­ur með sérþarf­ir, sem Skrúður læt­ur sér ákaf­lega annt um. „Hann örv­ar þau þegar það á við og róar þegar þau þurfa á því að halda,“ seg­ir Elma.

Skrúður hef­ur eign­ast um 60 af­kvæmi. Eitt þeirra, Ístjarn­ar-Tind­ur, var á áður­nefndri sýn­ingu um helg­ina og var ekki síður sig­ur­sæll en faðir­inn. „Hann Skrúður minn er ennþá á rakka­lista og er enn býsna eft­ir­sótt­ur,“ seg­ir Elma og hlær.

Skrúður hef­ur feng­ist við fleira en sýn­inga­hald, að eign­ast hvolpa og vinna með börn­um, því lík­lega er hann með menntaðri hund­um á land­inu. Auk þess að hafa farið á fjöl­mörg hlýðni­nám­skeið er hann með ým­is­kon­ar sér­nám á fer­il­skránni eins og t.d. spora- og hluta­leit. Hann hef­ur und­ir­geng­ist ströng próf til að mega hampa nafn­bót­inni Íslensk­ur hlýðni­meist­ari, hann hef­ur unnið til fjöl­margra verðlauna í gegn­um tíðina og að sögn Elmu er heim­ilið nán­ast und­ir­lagt af ýms­um verðlauna­grip­um. „Hann á þetta allt sam­an svo sann­ar­lega skilið. En það sem okk­ur þykir einna vænst um eru verðlaun­in Af­reks­hund­ur árs­ins 2014 sem hann fékk eft­ir að mynd­in um hann og Elsu Lind var gerð,“ seg­ir Elma.

Elsa Lind og Skrúður.
Elsa Lind og Skrúður.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur: