Franskir repúblikanar velja frambjóðanda

Stuðningsmenn franska Repúblikanaflokksins veifa franska fánanum. Myndin er úr safni.
Stuðningsmenn franska Repúblikanaflokksins veifa franska fánanum. Myndin er úr safni. AFP

Útlit er fyrir að mjótt verði á mununum á milli þriggja frambjóðenda í forvali franska miðhægri Repúblikanaflokksins. Atkvæðagreiðsla í fyrri umferð forvalsins hófst í dag en Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti, er einn þremenninganna sem keppast um útnefningu flokksins.

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að Francois Fillon, sem var forsætisráðherra í forsetatíð Sarkozy, eigi möguleika á að komast áfram í seinni umferð forvalsins þar sem kosið verður á milli efstu tveggja frambjóðendanna eftir fyrri umferðina. Alain Juppe, fyrrverandi forsætisráðherra, var fyrir fram talinn líklegastur til að hljóta útnefninguna.

Auk þremenninganna eru fjórir aðrir í framboði.

Búist er við því að sá sem sigrar í forvalinu muni etja kappi við öfgaþjóðernissinnann Marine Le Pen í forsetakosningunum á næsta ári.

Sarkozy hefur unnið á að undanförnu en hann er sagður hafa höfðað til popúlískra hvata stuðningsmanna Repúblikanaflokksins.

Alls voru 2,5 milljónir kjósenda á kjörskrá í forvalinu. Ekki er búist við fyrstu tölum fyrr en kl. 21:30. Seinni umferð forvalsins fer fram eftir viku.

mbl.is