Níu heimilisofbeldismál um helgina

Þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi maka.
Þriðja hver kona verður fyrir ofbeldi maka. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Tólf líkamsárásir komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þar af var um heimilisofbeldi að ræða í níu tilvikum. 32 gistu fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu um helgina og alls voru 333 mál skráð í dagbók lögreglu frá því á föstudagskvöld til sunnudagskvölds. 

Nóttin í nótt var fremur róleg, að sögn varðstjóra í lögreglunni. Einn ökumaður var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var hann látinn laus eftir blóðtöku. Annar var stöðvaður fyrir akstur bifreiðar án þess að vera með bílpróf.

Lögregla fékk eina tilkynningu um afstungu frá árekstri í nótt og jafnframt var tilkynnt um tvö smávægileg umferðaróhöpp. Tvö þjófnaðarmál komu upp á höfuðborgarsvæðinu í nótt en í öðru tilvikinu var brotist inn í bifreið. 

Einn maður var handtekinn síðla nætur vegna rúðubrots en ástand hans var frekar bágborið og gistir hann því fangageymslur lögreglunnar.

Það helsta frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins frá liðinni helgi (25.11 kl. 19:00 til 27:11. kl. 19:00.)

25 ökumenn kærðir vegna gruns um ölvun/fíkniefnaakstur.

5 réttindalausir ökumenn kærðir.

15 skráðir þjófnaðir þar af 7 innbrot.

5 bifreiðum stolið.

12 skráðar líkamsárásir, þar af 9 sem heimilisofbeldi.

7 skráð eignarspjöll.

14 umferðaróhöpp.

2 slys, heimili og íþrótta.

Skráningarmerki tekin af 4 bifreiðum.

38 sinnum veitt aðstoð við borgara yfirleitt vegna ölvunar eða veikinda.

32 einstaklingar gistu fangageymslur lögreglunnar á Hverfisgötu 113 um helgina.

mbl.is