Rannsakar meintar pyntingar á föngum

AFP

Sérfræðingur á vegum Sameinuðu þjóðanna sem er sérhæfður í rannsóknum á pyntingum hóf í dag vikulanga heimsókn til Tyrklands í kjölfar ásakana fanga um að þeir hafi sætt illri meðferð eftir misheppnað valdarán í landinu í júlí.

Nils Melzer, sérlegur erindreki SÞ, kom til Tyrklands í gær og mun ræða við meint fórnarlömb og fanga í fangelsum landsins, samkvæmt tilkynningu frá SÞ í Ankara. Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki sent sérstakan fulltrúa sinn til Tyrklands til þess að rannsaka meintar pyntingar af hálfu yfirvalda síðan árið 1998.  

Um mánuður er síðan mannréttindasamtök sökuðu stjórnvöld um að bera ábyrgð á pyntingum á fólki sem var fangelsað grunað um að eiga aðild að valdaráninu 15. júlí. Ríkisstjórin segir ekkert hæft í ásökunum og að fangar fá meðferð í samræmi við lög í fangelsum landsins. Um 37 þúsund manns hafa verið handteknir í tengslum við valdaránstilraunina, sem fór út um þúfur. 

Ríkisstjórn Tyrklands lýsti í kjölfarið yfir neyðarástandi í landinu og hefur það verið framlengt. Forveri Melzer, Juan Mendez, átti að skoða aðstæður í Tyrklandi í október en tyrknesk yfirvöld synjuðu honum um að koma til landsins.

Melzer tók við starfinu í byrjun nóvember og starfar í Genf (Geneva Academy of International Humanitarian Law and Human Rights). 

Hér er hægt að lesa nánar um fyrri störf hans 

BBC hefur fjallað um pyntingar og hótanir sem fangar hafa orðið fyrir í Tyrklandi. Hvernig fangar hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í haldi, barsmíðum ofl.

Fleiri frásagnir á BBC

mbl.is