Forðaði sér undan heimilisofbeldi

Úr teiknimyndinni Tölum um ofbeldi

Kona leitaði aðstoðar lögreglu í Kópavogi í gærkvöldi og tilkynnti að hún hefði orðið fyrir ofbeldi á heimili sínu skömmu áður. Konan kom klukkan 22:34 á lögreglustöðina í Kópavogi og tilkynnti að hún hefði orðið fyrir ofbeldi á heimili sínu í Breiðholti skömmu áður. 

Lögreglumenn handtóku í kjölfarið mann á fimmtugsaldri grunaðan um að vera valdur að ofbeldinu. Maðurinn færður til lögreglustöðvar þar sem hann var yfirheyrður. Að skýrslutöku lokinni var hann frjáls ferða sinna og málið komið í farveg, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Líkt og fram kemur í Morgunblaðinu í dag hafa, samkvæmt bráðabirgðatölum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, 573 tilkynningar um heimilisofbeldi verið bókfærðar í málaskrá lögreglu það sem af er ári. Til samanburðar var tilkynnt um 582 slík mál hjá lögreglu á fyrstu ellefu mánuðum ársins árið 2015 og 643 mál á árinu í heild.

mbl.is