Ekki að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðslu

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda þvertaka fyrir að vera að reyna …
Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda þvertaka fyrir að vera að reyna að hafa áhrif á kjarasamningsmál sjómanna. Eðlilegt sé að spyrja spurninga um innihald þeirra. mbl.is/Albert Kemp

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) segja spurningar sínar um innihald kjarasamninga sjómanna eðlilegar og ítreka þá kröfu sína að markaðsverð verði notað í öllum fiskviðskiptum.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SFÚ vegna ummæla Valmundar Valmundssonar, formanns Sjómannasambands Íslands í þessari frétt 200m mílna.

Samtökin segja innihald nýgerðra kjarasamninga sjómanna festa tvöfalda verðmyndun í sjávarútvegi í sessi, þar sem í samningunum sé skýrt kveðið á um að hluti sjómanna fái greitt 100% skiptaverð út frá verði á fiskmörkuðum en hluti einungis 80% af fiskmarkaðsverði.

Ekki að reyna að hafa áhrif á framvinduna

SFÚ vísar því alfarið á bug að samtökin séu með einum eða öðrum hætti að reyna að hafa áhrif á framvindu atkvæðagreiðslu sjómanna um þann kjarasamning stéttarinnar sem nú liggur undir atkvæðagreiðslu.

Tveggja ára gömul tillaga SFÚ um að verðlagsstofuverð skyldi gilda um uppgjör við alla sjómenn hafi einungis verið hugsuð sem sáttatillaga og ein leið til að jafna þann samkeppnismismun sem ríkir í greininni milli útgerðarvinnsla annars vegar og sjálfstæðra útgerða og framleiðenda hins vegar.

Þetta ætti formanni Sjómannasambands Íslands að vera kunnugt um, þrátt fyrir það sem eftir honum var haft í téðu viðtali.

Skortástand á fiskmörkuðum á ábyrgð stórútgerða

SFÚ segir erfitt að henda reiður á því hvað formaðurinn eigi við með því að markaðsverð sé ekki endilega rétt verð. Sé Valmundur að vísa til þess að lítið hráefni berist á íslenskan fiskmarkað sökum þess að stórútgerðir stýri nær engum afla þar inn, geti samtökin þó tekið undir það. Það sé enda þeirra mat að skortástand sé við lýði á íslenskum fiskmörkuðum og sé það ástand alfarið á ábyrgð stórútgerðanna, sem selji lítinn sem engan afla á markaði.

Í tilkynningu samtakanna kemur enn fremur fram að það veki furðu þeirra að þeir sem fari með kjaramál sjómanna skuli semja við viðsemjendur sína um mismunandi kjör sinna félagsmanna með þeim hætti að hluti þeirra fái uppgjör miðað við fullt markaðsverð en afgangurinn miðað við 80% af sama verði.

mbl.is