Er eðlilegt að taka niður fyrir sig?

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda. Hér er hann spurður út í makaval. 

Sæll Valdimar, 

Er hægt að búast við viðvarandi sambandi við manneskju sem er neðar í lífsstiganum?(Kannski vitlaust orðað)

Þá meina ég, ég kynnist persónu sem er ekki jafnfætis mér í lífinu fjárhagslega, og að sumu leyti félagslega, og bara almennt. Mikill munur þar á. Eins og veröldin er í dag, er þetta mögulegt, eða er þetta bara ást sem þarf að klárast, eða þurrka út?

Kær kveðja, 

einn áttaviltur

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Þetta er afar áhugaverð spurning og mig langar að velta nokkrum spurningum til baka: Hvað veldur áhyggjum þínum varðandi þetta samband? Ertu að hugsa um viðhorf annarra gagnvart manneskjunni sem þú ert í sambandi við? Eða er það þitt eigið viðhorf sem er að þvælast fyrir? Upplifir þú þig vera að „bjarga“ viðkomandi aðila með því að vera í sambandinu? Hvort ert þú ástfanginn af manneskjunni sjálfri eða stöðunni sem hún er í? Ef svarið er „manneskjan“, hvaða máli skiptir þá hvar hún stendur í lífinu?

Við erum öll jafnmikils virði óháð fjárhagslegri og félagslegri stöðu. Þetta er ein mikilvægasta forsenda allra samskipta og náinna sambanda. Tveir aðilar eru aldrei nákvæmlega jafnfætis hvað varðar fjárhagslega og félagslega stöðu, frekar en á flestum öðrum sviðum lífsins. Ef það væri forsenda ástar þá værum við í miklum vanda. Ég hvet þig til að skoða mjög vel hvaða skilning þú leggur í orðið „ást“ og velta fyrir þér hugtakinu „skilyrðislaust“. Ef maður elskar einhvern þá felur það í sér að taka viðkomandi eins og hann er og sýna það í verki að maður beri virðingu fyrir einstaklingnum. Ef fólk er einhverra hluta vegna utan við eitthvað meðaltal í fjárhagslegum og/eða félagslegum skilningi, þá er ekki síður mikilvægt að það finni fyrir stuðningi, virðingu og fordómaleysi hjá maka sínum. Í samböndum uppsker fólk eins og það sáir og því ætti ástin ekki að hafa með það að gera hvar fólk er statt í samanburði við aðra.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is