„Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar?“

Kristinn H. Gunnarsson er stóryrtur í garð útgerðarmanna og segir …
Kristinn H. Gunnarsson er stóryrtur í garð útgerðarmanna og segir þá hafa gengið á lagið. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fyrrverandi alþingismaður vandar útgerðum landsins ekki kveðjurnar í nýrri grein og segir útgerðarmenn ofverndaða.

„Nú stendur yfir enn ein áróðurshrinan hjá stórútgerðinni. LÍÚ berst um á hæl og hnakka gegn hugmyndum um innleiðingu á samkeppni í sjávarútvegi þar sem öllum fyrirtækjum yrði gert að starfa á sama grundvelli. Kjarninn í breytingartillögunum er að innkalla veiðiheimildir og setja almennar reglur um ráðstöfun þeirra. Í markaðshagkerfi er samkeppnin lykilatriðið og það er meginreglan í íslensku samkeppnislöggjöfinni,“ skrifar Kristinn H. Gunnarsson fyrrverandi alþingismaður í nýrri grein sem birtist á heimasíðu hans.

Hirða afraksturinn sjálfir

Kristinn gagnrýnir kvótakerfið harðlega og segir útgerðina meðhöndlaða sem vesalinga sem þurfi sérstaka vernd ríkisins til að geta rekið fyrirtæki sín. Þannig fái handhafar veiðiréttarins ótímabundna úthlutun, hafi öryggi um aldur og ævi og þurfi ekki að óttast samkeppni um veiðiheimildirnar. Kvótaeigendur geti því látið aðra veiða fiskinn en hirt afraksturinn sjálfir.

„Sjálft kerfið,“ segir Kristinn, „ breytir valdahlutföllum í samskiptum atvinnurekenda og launþega á þann hátt að útgerðin hefur tögl og hagldir, hún ræður algerlega ferðinni og setur sjómönnum reglurnar. Annaðhvort gera sjómenn eins og þeim er sagt eða þeir geta farið annað eða þá að þeim er beinlínis hótað brottrekstri. Útgerðin hefur gengið á lagið og ákveður leikreglurnar sér í vil.“

Máli sínu til stuðnings bendir Kristinn á eftirfarandi:

20% afsláttur af markaðsverði

„Nýundirritaðir kjarasamningar færa útgerð sem jafnframt er fiskkaupandi fiskinn með 20% afslætti frá markaðsverðinu. Þetta þýðir miðað við 2015 að verðið á fiski sem seldur er í beinum viðskiptum er með 11 milljarða króna afslætti. Það lækkar laun sjómanna að sama skapi. Eru útgerðarmenn svo miklir vesalingar að þeir þurfa að fá 20% afslátt frá markaðsverði til þess að geta rekið fyrirtæki sín? Geta þeir ekki keppt við aðra fiskkaupendur?“

Nýsmíðaálag lækkar laun sjómanna

„Þrátt fyrir hástemmdar lýsingar á arðsemi íslensks sjávarútvegs og yfirburðafærni núverandi kvótahafa verða þeir að sækja hluta af kaupverði nýrra skipa í vasa sjómanna. Nýsmíðaálagið lækkar laun sjómanna um allt að 10%. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki í besta fiskveiðikerfi í heimi greitt skipin sín án þess að seilast ofan í vasa áhafnarinnar?“

Sjómannaafslátturinn

„Um áratugaskeið niðurgreiddi ríkið launakostnað útgerðarinnar með sjómannaafslættinum. Fyrir fáum árum var því hætt og útgerðin talin geta borið sjálf þennan kostnað. Aðstæður í útgerð hafa líka verið með besta móti. En það var ekki við það komandi að útgerðin greiddi þennan 1,5 milljarð króna. Kjör sjómanna rýrnuðu sem þessu nemur. Eru útgerðarmenn slíkir vesalingar að þeir geta ekki greitt laun sjómanna í bestu afkomu um áratugaskeið?“

Aðstæðurnar afleiðing einokunar

„Þessar aðstæður þekkjast ekki í öðrum atvinnugreinum. Þar verða atvinnurekendur að standa sig. Þeir eru í samkeppni við önnur fyrirtæki og geta ekki bannað nýjum aðilum að hasla sér völl. Samkeppnin nær ekki bara til framleiðslunnar heldur einnig til vinnuaflsins. Aðstæður í sjávarútveginum er afleiðing einokunar. Útvegsmenn eru ekki vesalingar. Þeir geta vel rekið fyrirtæki sín við eðlileg samskeppnisskilyrði. En einokunaraðstaða þeirra og óeðlileg völd er afleiðing af lagaumgjörðinni. Sjómenn og íbúar sjávarbyggðanna eru meira og minna í gíslingu fárra eigenda sjávarútvegsfyrirtækja sem bera engar lagalegar skyldur um hag þeirra.“

Grein sinni lýkur Kristinn á þeim orðum að útgerðarmenn vilji viðhalda einokunaraðstöðunni, þeir séu á móti innköllun veiðiheimilda, á móti samkeppni um þær, á móti því að greiða markaðsverð fyrir fiskinn og veiðiheimildirnar og andsnúnir byggðatengingu veiðiheimilda. Útgerðarmenn vilji óbreytt ástand. Það færi fáum mikið, en margir tapi – og þjóðin mestu.

mbl.is