Verkfall sjómanna skall á kl. 20 í kvöld. Voru veiðafæri þá hífð úr sjó og haldið í land. Óvíst er um framhaldið en menn gera ráð fyrir að ríkissáttasemjari boði til fundar fyrr en síðar.
Guðmundur í Nesi RE 13, frystitogari í eigu útgerðarfélagsins Brims, er lagður af stað heim á leið. Þorgrímur Jóel Þórðarson, annar skipstjóra Guðmundar, segir útlitið ekki bjart.
„Ég er ekki að fara í verkfall en það eru allir undirmenn að fara í verkfall og þá þarf að fara í land,“ segir hann. Áhöfn frystitogarans telur 20 en þar af eru 14 komnir í verkfall.
En hvernig er hljóðið í mönnum?
„Það er eitthvað misjafnt en hvað okkur varðar á frystitogurunum er þetta frekar slæmt. Það er frekar þessi línufloti sem er óánægður. Okkar verð stýrist af genginu og við gerum ekkert í því með verkfalli,“ segir Þorgrímur.
Ef ekki hefði komið til verkfalls hefði Guðmundur í Nesi haldið til hafnar 22. desember næstkomandi og veiðitapið eftir því, að sögn skipstjórans.
Þá stóð til að togarinn héldu aftur til veiða 2. janúar en Þorgrímur segir menn ekkert allt of bjartsýna á að lausn sé í sjónmáli.
„Nei, það heyrist mér ekki,“ segir hann. „Ég held að það sé ekki bjart yfir því að það verði samið. En auðvitað vonar maður það.“