Talningu atkvæða um nýjan kjarasamning sjómanna við útgerðir lauk nú á hádegi og niðurstaðan varð sú að sjómenn hefja verkfall kl. 20 í kvöld.
Hjá Sjómannasambandi Íslands voru 177 sem samþykktu, 4 skiluðu auðu og nei sögðu 562 manns. Samningurinn var því felldur með 76% greiddra atkvæða.
Samkvæmt því sem fram kemur á Facebook-síðu Sjómannasambands Íslands hefst því verkfall í kvöld kl. 20 og skal þá öllum veiðum hætt hjá félagsmönnum sambandsins.
Hjá Sjómannafélagi Íslands var niðurstaðan enn meira afgerandi, en þar var samningurinn felldur með 86% greiddra atkvæða.
Verkalýðsfélag Vestfjarða felldi samninginn með 89% greiddra atkvæða og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur felldi með 90% greiddra atkvæða félagsmanna.
Niðurstaðan er því sú að mikill meirihluti sjómanna allra aðildarfélaga felldi samninginn og hefst því ótímabundið verkfall sjómanna í kvöld kl. 20.
Uppfært kl. 14:22:
Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segist reikna með að Ríkissáttasemjari kalli aðila til fundar fljótlega.
„En nú mun flotinn sigla í land í kvöld. Nýkjörin sambandsstjórn, sem er samninganefnd Sjómannasambandsins, mun koma saman innan skamms og taka ákvörðun um framhaldið," sagði Valmundur í samtali við mbl.is.