Einhugurinn alger og baklandið sterkt

Formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur segir sjómenn reiða vegna launaþróunar …
Formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur segir sjómenn reiða vegna launaþróunar og stighækkandi frádráttarliða af launum þeirra. mbl.is/Hlynur Ágústsson

Ótímabundið verkfall sjómanna hófst í gær eftir að niðurstöður kosningar um nýjan kjarasamning sjómanna lágu fyrir. Formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur segir einhug ríkja meðal sjómanna enda hafi yfirgnæfandi meirihluti hafnað nýja samningnum.

„Niðurstöðurnar eru afgerandi,“ segir Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, í samtali við mbl.is. „Það voru yfir 90% okkar félagsmanna sem sögðu nei, svo einhugurinn er alger og baklandið sterkt,“  bætir hann við.

Laun sjómanna lækkuð mánaðarlega

Einar segir helstu kröfur sjómanna snúast um þá staðreynd að frádráttarliðir af launum sjómanna hafi farið stighækkandi og menn séu mjög ósáttir við það. „Við erum með mikið af línubátasjómönnum sem hafa lækkað mikið í launum og úrskurðarnefndin lækkar laun sjómanna mánaðarlega svo sjómenn eru mjög reiðir yfir því,“ segir hann.

Að mati Einars er fyrsta mál á dagskrá að taka einhvers konar samtal við útgerðarmenn, að því gefnu að útgerðarmenn vilji tala við þá. Sjómenn vinni enda fyrir þá og því sé það þeirra að ná einhverju saman í þessum efnum.

„Það hlýtur að koma fljótlega. Við verðum bara að vera bjartsýnir. Þetta snýst um samfélagslega ábyrgð og við verðum að sinna henni,“ segir Einar.

„Næst er það jólafrí“

Næst á dagskrá segir hann hins vegar vera jólafrí. „Það er nú ein af kröfunum okkar; að sigla flotanum fyrr í land fyrir jólin. Við erum búnir að fá þá kröfu í gegn – í þetta skiptið alla vega,“ segir hann.

Einar segir verk fyrir höndum og nú vindi menn sér í að gera það sem þeir geti til að ná saman. „En boltinn liggur að svo stöddu hjá útgerðarmönnum,“ segir Einar Hannes Harðarson að lokum.

mbl.is