Af þeim sem greiddu atkvæði um nýjan kjarasamning sjómanna hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga felldu 87% félagsmanna samninginn. Trúnaðarmaður á Stefni ÍS, sem situr í samninganefnd sjómanna fyrir hönd Verk Vest, segir margt þurfa að koma til svo sjómenn verði sáttir.
„Útgerðarmenn hafa vísað út af borðinu öllu því sem skilar sér í launaumslagið hjá sjómönnum,“ segir Bergvin Eyþórsson sem situr í samningaráði sjómanna hjá Verk Vest. „Þar stendur hnífurinn í kúnni. Við viljum fá einhverjar launahækkanir eins og aðrir,“ segir Bergvin.
Hann segir laun sjómanna hafa lækkað vegna gengisbreytinga og lækkandi fiskverðs og sjómenn verði að fá eitthvað til baka. Þá svíði olíuverðsviðmiðið mikið.
„Olíuverðsviðmiðið átti að vera lækkun til að styðja við útgerðina á meðan illa gengi. Nú hefur útgerðum hins vegar gengið alveg myljandi vel og við sjómenn höfum samt sem áður verið í lágmarki á þessum skala svo langt aftur sem augað eygir. Þar verður eitthvað að gerast því þetta er eina atriðið sem skilar sér til allra sjómanna,“ segir hann.
Bergvin segir það hafa verið álitinn stórsigur í síðustu samningum að fá séreignarsparnað lífeyrisgreiðslna inn, eins og þá gilti þegar um alla aðra landsmenn. „Núna reyndum við að sækja það að fá orlofs- og desemberuppbót, eins og allir aðrir landsmenn fá. En það var ekki samþykkt heldur,“ bendir hann á.
Samningurinn sem kosið var um fól í sér að eftir sjö ár færi nýsmíðaálagið af í þrepum næstu sjö ár þar á eftir, svo að fjórtán árum liðnum væri það aflagt. Bergvin segir þetta of langan tíma og að álagið sem slíkt eigi ekki mikinn rétt á sér.
„Þeir sem eru að fá ný skip á næstunni klára sitt nýsmíðaálagstímabil áður en álagið fer að lækka. Menn eru ekki sáttir við það og vilja sjá álagið lækka eitthvað áður en tímabilinu lýkur fyrir þá sem fá ný skip á næsta ári,“ segir hann. „Helst vilja menn sjá þetta fara með öllu, en það er kannski ekki raunhæft alveg strax,“ bætir hann við. „En þetta þarf að lækka fyrr svo menn sjái einhverjar breytingar á sínum launaseðli. Annað er óásættanlegt.“
Bergvin vísar til þess að útgerð hafi gengið framúrskarandi vel undanfarið en sjómenn hafi á sama tíma þurft að sæta stighækkandi niðurskurði á sín laun. Þeir vilji fá sjómannaafsláttinn inn líka, en sú krafa snúi ekki að útgerðum beint, heldur ríkinu.
„Við viljum fá fæðispeningana okkar inn í formi dagpeninga svo þeir yrðu skattfrjálsir, alveg eins og hjá öllum þeim sem vinna í landi. Þeir þurfa ekki að greiða skatt af því sem þeir fá að borða hjá sínu fyrirtæki. Í þessu felst aðstöðumunur og okkur finnst við órétti beittir að njóta ekki sömu kjara og fólk í landi gerir,“ segir Bergvin Eyþórsson.