Lögreglan í Nýju-Delí hefur handtekið mann sem er sakaður um að hafa nauðgað konu í borginni á miðvikudagskvöldið. Fjögur ár eru í dag liðin frá því að ungri konu var nauðgað hrottalega af hópi karla í höfuðborginni. Hún lést nokkru síðar af völdum sára sinna. Málið vakti heimsathygli og gríðarlega reiði enda kynbundið ofbeldi algengt í Indlandi. Í kjölfarið var refsiramminn fyrir kynferðislegt ofbeldi hertur til muna.
Konan sem varð fyrir árásinni var að bíða eftir strætó á miðvikudagskvöldið þegar maður bauð henni far sem hún þáði. Hann nauðgaði henni síðan í bílnum, að sögn Rekha, lögreglumannsins sem fer með málið. Hann segir að árásarmaðurinn hafi verið handtekinn og að hald hafi verið lagt á bifreiðina.
Rekha segir að sá grunaði sé bílstjóri hjá liðsmanni í sérsveit lögreglunnar (Central Industrial Security Force). Bílstjórinn flúði af vettvangi og var handtekinn á heimili vinar síns í gærmorgun. Hann verður leiddur fyrir dómara síðar í dag.
Í fyrra voru tilkynntar 2.199 nauðganir í Delí í fyrra en árið 2012 var tilkynnt um 706 nauðganir í borginni. Talið er að umræðan um kynbundið ofbeldi í landinu hafi þau áhrif að fleiri þori að gefa sig fram og kæra slíkt ofbeldi.
Fimm voru ákærðir fyrir aðild að hópnauðguninni á 23 ára gamalli konu 16. desember 2013 sem síðan leiddi til dauða hennar. Mennirnir voru að auki ákærðir fyrir mannrán, en þeir héldu konunni og unnusta hennar föngnum.
Konunni var nauðgað af sex mönnum, en einn þeirra var undir lögaldri. Fjórir mannanna voru síðar dæmdir til dauða fyrir nauðgunina en einn fimmmenninganna fannst látinn í fangaklefa sínum áður en til dóms kom.