„Við ítrekuðum okkar áhersluatriði og kynntum hvað við getum talið að yrði til lausnar deilunni. Það var ekki vel tekið í það,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins, um fund sjómannaforystunnar og Sambands fyrirtækja í sjávarútvegi.
Fundurinn hófst klukkan 11 í morgun og var lokið fyrir klukkan 12. Hann var því stuttur eins og Valmund grunaði.
Frétt mbl.is: Fundur í kjaradeilu sjómanna hafinn
„Auðvitað er deilan grafalvarleg. Það er orðið langt á milli aðila og stál í stál,“ segir hann.
„Í ljósi þess hvaða tími ársins þetta er var ákveðið að við myndum hvíla okkur yfir jólin og hlaða batteríin. Sjómenn eru að hittast þessa dagana og munu gera það á milli jóla og nýárs eins og þeir gera yfirleitt alltaf, til að bera saman bækur sínar um kröfugerð og annað. Við reynum að fara inn í jólin rólegir. Svo er búið að boða aftur fund eftir áramót.“
Frétt mbl.is: Næsti fundur eftir áramót