Gagnrýna fiskvinnslufyrirtækin

Stjórn Fram­sýn­ar kom sam­an til fund­ar í gær­kvöldi til að ræða stöðuna, það er verk­fall sjó­manna og ákvörðun sumra fisk­vinnslu­fyr­ir­tækja að senda starfs­fólk heim á at­vinnu­leys­is­bæt­ur. 

Í til­kynn­ingu frá Fram­sýn kem­ur fram að dæmi séu um að fyr­ir­tæki í fisk­vinnslu full­yrði að það sé hag­stæðara fyr­ir starfs­fólk að vera á at­vinnu­leys­is­bót­um í stað þess að vera á kaup­trygg­ingu hjá fyr­ir­tækj­un­um sem er fás­inna.

„Sé það rétt eins og ákveðin fyr­ir­tæki hafa haldið fram er það ámæl­is­vert fyr­ir verka­lýðshreyf­ing­una og Sam­tök at­vinnu­lífs­ins að það sé hag­stæðara að vera á at­vinnu­leys­is­bót­um en að vera á launa­skrá hjá viðkom­andi fyr­ir­tækj­um,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá Fram­sýn.

Álykt­un

Um verk­fall sjó­manna og lok­un fisk­vinnslu­fyr­ir­tækja

„Fram­sýn, stétt­ar­fé­lag hvet­ur for­ystu Sjó­manna­sam­bands Íslands og Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi (SFS) að setj­ast þegar niður við samn­inga­borðið með það að mark­miði að ná fram ásætt­an­leg­um kjara­samn­ingi fyr­ir sjó­menn.

Sann­gjarn­ar kröf­ur sjó­manna eiga ekki að þurfa að standa í vegi fyr­ir því að gengið verði frá nýj­um kjara­samn­ingi. Það er mik­ill ábyrgðar­hluti af hálfu SFS að spyrna við fót­um og kenna gengi krón­unn­ar um óánægju sjó­manna með sín kjör, vand­inn er mun stærri en það og end­ur­spegl­ast í kröfu­gerð sjó­manna.

Fram­sýn gagn­rýn­ir þau fisk­vinnslu­fyr­ir­tæki sem beina starfs­fólki á at­vinnu­leys­is­bæt­ur vegna verk­falls sjó­manna, fyr­ir­tæki sem bera því jafn­vel við og al­hæfa að starfs­fólkið sé bet­ur komið á at­vinnu­leys­is­bót­um en á kaup­trygg­ingu hjá fisk­vinnslu­fyr­ir­tækj­um. Fyr­ir­tæki sem skilað hafa sögu­leg­um rekstr­ar­hagnaði.

Fram­sýn hvet­ur fisk­vinnslu­fyr­ir­tæki til að halda starfs­mönn­um á launa­skrá í verk­falli sjó­manna og virða þannig sjálf­sögð rétt­indi vinn­andi fólks.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina