Sjómannaverkfallið hefur ekki haft áhrif á fisksölu í landinu að sögn Óskars Guðmundssonar hjá fiskbúðinni Hafberg en hann hefur starfað sem fisksali í að verða 40 ár, eða síðan 22. maí 1978. „Verkfall sjómanna hefur aldrei haft nein áhrif á fiskverslanir,“ segir Óskar.
Ótímabundið verkfall sjómanna skall á fyrir viku síðan og sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, í samtali við mbl.is að enginn fundur væri boðaður í deilunni fyrr en 5. janúar hjá ríkissáttasemjara.
Frétt mbl.is: Næsti fundur eftir áramót
„Fiskverslanir hafa yfirleitt stólað á þann fisk sem smábátarnir koma með,“ segir Óskar og bætir við að menn rói á smærri bátum ef veður og sjólag er til en verkfallið nær ekki til þeirra. Óskar segir það þó oft á tíðum erfitt að róa á þessum tíma árs fyrir smærri báta, upp að 20 til 25 tonnum.
Hann segir þar að auki að á þessum árstíma verði fiskmarkaðir óstarfhæfir í kringum Þorláksmessu, síðasta uppboðið á fiskmörkuðum sé daginn fyrir Þorláksmessu sem „helgast af því að yfirleitt er mjög erfitt að fá fisk fluttan í bæinn yfir jólahald. Megnið af fisknum sem Reykjavíkursvæðið notar er utan af landi,“ segir hann.
Óskar segir að markaðsverð sé hærra á fiski þar sem framboð sé minna vegna verkfallsins. „Verð er í hærri kantinum en það er eðlilegt með tilliti til þess að það er gríðarlega lítið framboð,“ segir Óskar.
En borða Íslendingar fisk á jólunum?
„Þetta er rígfast í ákveðnum hefðum,“ segir Óskar. Að sjálfsögðu spilar skatan stórt hlutverk hjá mörgum á Þorláksmessu en Óskar segir að á aðfangadag sé nokkuð um að fólk leggi sér til munns lax, stórlúðu, smálúðu eða skötusel. Þá er humarinn einnig gríðarlega vinsæll að sögn Óskars, en telst ekki til fisks. Hann segir jólin hátíð nostalgíunnar:
„Fólk er að gera þessar gömlu góðu fiskirendur, þessa hluti sem þau lærðu hjá mömmu og ömmu,“ segir Óskar og bætir við að margir þeirra sem borði fisk frekar en kjöt á aðfangadag hafi á orði að það sé miklu meiri ofurfæða en nokkurn tíman kjötið.