Stjúpan með prófílmynd af barninu

Valdimar Þór Svavarsson.
Valdimar Þór Svavarsson. mbl.is/Árni Sæberg

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann póst frá móður sem er ekki sátt við nýju konu fyrrverandi. 

Sæll Valdimar,

Samband  mitt við barnsföður minn hefur alltaf verið gott en við skildum fyrir nokkrum árum. Eftir að hann eignaðist kærustu breyttist þó margt, svona eins og gengur og gerist. Nýja konan kom eins og gleðisprengja inn í líf sonar okkar og hefur verið svo „all in“ að það jaðrar við að fara í taugarnar á mér. Eitt lítið atriði. Það fyrst sem hún gerði var að setja prófílmynd af sér á Facebook með syni mínum. Ok, mögulega væri þetta í lagi ef við foreldrarnir gerðum þetta en svo er ekki. Hvorugt okkar póstar myndum af barninu í gríð og erg. Hvernig get ég brugðist við þessu og látið vita að mér mislíkar þetta?

Kær kveðja,

Facebook-mamman

Góðan daginn „Facebook-mamma“ og takk fyrir spurninguna.

Ég velti fyrir mér hvaða viðhorf þú hefur gagnvart þessu máli almennt. Er raunveruleg ástæða fyrir því að þér mislíkar þetta sú að þú viljir síður að myndir birtist af barninu þínu á Facebook, eða ert þú hugsanlega að vinna með tilfinningar í tengslum við nýju konuna og að hún veki svo mikla gleði í lífi sonar þíns? Það er fátt eins dýrmætt eins og að finna að nýir makar sem koma að uppeldi barna okkar veiti þeim áhuga og kærleika. Að því leytinu til hljómar þetta eins og staðan sé eins og best verður á kosið miðað við skilnað, það er að segja að þið barnsfaðirinn séuð í góðum tengslum og að núverandi maki hans sé góður við ykkar barn.

Hafandi sagt þetta þá hvet ég þig einfaldlega til að ræða málið af yfirvegun við barnsföðurinn og ef þið eruð almennt sammála um að myndir af barninu eigi ekki að heima á Facebook þá ætti hann að geta rætt það við núverandi maka.

Nýlega svaraði ég svipaðri spurningu sem tengdist einnig barni, Facebook og maka fyrrverandi eiginmanns. Þar koma fram ýmis atriði sem þú gætir hugleitt í þessu samhengi. Þú getur skoðað það HÉR.

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is