Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti þremur heimilisofbeldismálum í austurhluta Reykjavíkur i gærkvöldi og nótt. Einn skarst illa á hendi og var fluttur á slysadeild en áverkann hlaut hann við að brjóta rúðu á heimilinu. Tveir ofbeldismannanna gista fangaklefa.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom fyrsta tilkynningin upp úr tíu í gærkvöldi og er ofbeldismaðurinn í fangaklefa vegna rannsóknar á málinu.
Um miðnætti var aftur tilkynnt um heimilisofbeldi á öðru heimili í austurhluta Reykjavíkur og var ofbeldismaðurinn vistaður í fangaklefa.
Þriðja tilkynningin, í sama borgarhluta, kom síðan um þrjú en ofbeldismaðurinn var fluttur á sjúkrahús þar sem hann skarst illa á hendi við að brjóta rúðu á heimilinu. Lögreglan lagði hald á fíkniefni á því heimili.