Leikarinn Brad Pitt hefur skilað nýjum gögnum til dómstóla vegna skilnaðar hans við leikkonuna Angelinu Jolie. Í gögnunum fullyrðir Pitt að Jolie sé „staðráðin í að hundsa umsamdar reglur í tengslum við hagsmuni barnanna.“
Jolie sótti um skilnað um miðjan september og hafa hjónin barist um forræði barnanna. Var Pitt meðal annars ásakaður um ofbeldi gegn börnum þeirra og rannsakaður vegna þessa en ekkert fannst sem benti til þess að hann hefði brotið gegn syni sínum.
Jolie hefur krafist fulls forræðis yfir börnunum en hún og Pitt komust að tímabundnu samkomulagi í byrjun nóvember. Samkvæmt samkomulaginu eru börnin í forsjá Jolie en Pitt fær að hitta þau undir eftirliti sérfræðinga.
Fyrir um tveimur vikum var Pitt neitað um neyðarréttarhöld til að staðfesta skilnaðarpappírana. Hafði Jolie verið á móti slíkum réttarhöldum og ásakað Pitt um að leggja fram beiðnina til að skýla sjálfum sér frekar en börnunum, frá kastljósinu.
Í gögnunum sem CNN hefur undir höndum fullyrðir Pitt að Jolie vanti sjálfstýringu. Á hann þar við að Jolie reyni ekki að koma í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar verði opinberar, til dæmis með því að nefna sálfræðinga fjölskyldunnar á nafn í dómskjölum.