Meta hugsanlegan skaða af Trump

Donald Trump er ekki líklegur til að halda loftslagsaðgerðum Barack …
Donald Trump er ekki líklegur til að halda loftslagsaðgerðum Barack Obama áfram þegar hann verður forseti. AFP

Vís­inda­menn hafa veru­leg­ar áhyggj­ur af því hvaða áhrif kjör Don­alds Trump sem for­seta Banda­ríkj­anna mun hafa á bar­átt­una gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Nokkr­ir þeirra hafa nú áætlað hvernig mögu­legt aðgerðal­eysi Banda­ríkja­manna und­ir Trump hefði áhrif á þróun hnatt­ræns meðal­hita í framtíðinni.

Trump hef­ur raðað af­neit­ur­um lofts­lags­vís­inda í ráðuneyti sitt en sjálf­ur hef­ur hann sagt lofts­lags­breyt­ing­ar vera kín­verskt „gabb“. Eins hef­ur hann lofað að end­ur­lífga kolaiðnaðinn í Banda­ríkj­un­um sem re­públi­kan­ar full­yrða að Barack Obama frá­far­andi for­seti hafi háð „stríð“ gegn en kol eru tal­in versti meng­un­ar­vald­ur­inn þegar kem­ur að gróður­húsaloft­teg­und­um sem valda lofts­lags­breyt­ing­um.

Eins og gef­ur að skilja hef­ur afstaða Trump og þeirra sem hann hef­ur raðað í kring­um sig vakið áhyggj­ur af því að rík­is­stjórn hans muni hætta aðgerðum til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda og að styrkja þróun end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa.

Mark­miðið um 2°C hlýn­un fjar­lægðist

Í grein sem birt­ist í tíma­rit­inu Nature Clima­te Change á öðrum degi jóla reyna Benjam­in Sand­er­son frá Loft­hjúps­rann­sóknamiðstöð Banda­ríkj­anna og Reto Knutti frá ETH-tækni­há­skól­an­um í Zürich að reikna út hvað slík stefnu­breyt­ing banda­rískra stjórn­valda hefði í för með sér fyr­ir lofts­lag jarðar.

Þeir kom­ast að þeirri niður­stöðu að ef Banda­rík­in fresta lofts­lagsaðgerðum sín­um í átta ár og los­un þeirra helst stöðug þá hafi það eitt og sér ekki of mik­il áhrif á jörðina, jafn­vel þó að Banda­rík­in séu ann­ar stærsti los­ari gróður­húsaloft­teg­unda í heim­in­um á eft­ir Kína.

Leiði for­dæmi Trump hins veg­ar til þess að aðrar þjóðir gefi lofts­lagsaðgerðir upp á bát­inn gæti það leitt til þess að los­un gróður­húsaloft­teg­unda verði 350 millj­örðum tonna meiri en ella. Það ylli 0,25°C hlýn­un og drægi veru­lega úr mögu­leik­um manna á að halda hnatt­rænni hlýn­un inn­an við 2°C sem er mark­mið Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins.

Áhrif­in yrðu enn verri ef Banda­rík­in ykju los­un sína og hættu að stuðla að þróun end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa sem drægi úr áhuga annarra ríkja á tækn­inni. Þá fjar­lægðist 2°C-mark­miðið enn frek­ar.

„Niðurstaðan er að jafn­vel mjög stutt töf á hnatt­ræn­um aðgerðum hefði veru­lega mikl­ar af­leiðing­ar fyr­ir get­una til að ná þess­um metnaðarfullu mark­miðum, jafn­vel með hnatt­rænt skipu­lögðum og metnaðarfull­um aðgerðum aðgerðum eft­ir árið 2025,“ seg­ir Sand­er­son við Washingt­on Post.

Mik­illi óvissu háð

Höf­und­ar grein­ar­inn­ar vara við því að taka hana of bók­staf­lega enda séu álykt­an­ir þeirra háðar mik­illi óvissu. Enn liggi ekki fyr­ir hver stefna Trump verði né hvernig leiðtog­ar annarra ríkja bregðist við henni.

Þótt hugs­an­legt sé að aðrar þjóðir verði síður vilj­ug­ar til þess að halda áfram með lofts­lagsaðgerðir sín­ar ef Banda­rík­in ganga úr skaft­inu en það fjarri því sjálf­gefið að þær muni hætta við metnaðarfull áform um að draga úr los­un.

Eins er upp­gang­ur­inn í end­ur­nýj­an­leg­um orku­gjöf­um eins og sól­ar- og vindorku slík­ur að ólík­legt er að áhuga­leysi banda­rískra stjórn­valda um þá drægi úr metnaði annarra ríkja á því sviði. Eins og Chris Moo­ney, blaðamaður Washingt­on Post, bend­ir á yrðu áhrif­in lík­leg­ar þau að dragi banda­rísk stjórn­völd sig út úr þróun end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa næðu aðrar þjóðir eins og Kín­verj­ar og Þjóðverj­ar for­skoti í sam­keppni á þeim markaði.

Um­fjöll­un Washingt­on Post

mbl.is