Það má ekki dragast mikið lengur að taka ákvörðun um nýtt skip fyrir Hafrannsóknastofnun, að sögn Sigurðar Guðjónssonar forstjóra. Hann bendir á að eldra skipið, Bjarni Sæmundsson, sé komið hátt á fimmtugsaldur. Þó svo að skipið hafi verið vel byggt í upphafi og endurnýjað talsvert á liðnum árum sé komið mikið viðhald á skipið. Árni Friðriksson kom hins vegar nýr til landsins árið 2000. Þrátt fyrir ýmsar áætlanir stjórnvalda um endurnýjun skipakostarins segist Sigurður ekki vita til þess að neitt hafi gerst í þeim efnum síðustu ár.
Í mars 2013 var samþykkt í ríkisstjórn, að tillögu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að skipa starfshóp til að undirbúa smíði og fjármögnun nýs rannsóknaskips fyrir Hafrannsóknastofnun. Björn Valur Gíslason var skipaður formaður starfshópsins sem skilaði í nóvember 2013 stöðuskýrslu til Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem þá var sjávarútvegsráðherra.
Í bréfi Björns Vals til ráðherra kemur fram að almenn samstaða og skilningur hafi verið í starfshópnum á nauðsyn þess að endurnýja skip Hafrannsóknastofnunar. Það sé hins vegar mat starfshópsins að það þjóni litlum tilgangi að halda undirbúningi smíðinnar áfram nema ljóst sé að ráðist verði í smíði á nýju skipi strax í kjölfarið.
Í stöðuskýrslunni frá 2013 kemur fram að miðað við smíði 40-45 metra rannsóknaskips gæti heildarkostnaður numið um 2,5 milljörðum króna. Reiknað er með að verkið geti tekið nálægt þremur árum frá því ákvörðun er tekin, það er hönnunarferli, útboð og smíði nýs skips. Ef tekin yrði ákvörðun um smíði lengra skips myndi það auka nokkuð á smíðakostnað.
Starfshópur sem forstjóri Hafrannsóknastofnunar skipaði í lok árs 2010 hafði það verkefni að meta þá þætti er snertu þarfir stofnunarinnar varðandi rannsóknaskip og þá valkosti sem væru til staðar. Stjórn Hafrannsóknastofnunar ályktaði að besti kosturinn til framtíðar væri að smíða nýtt skip.
Í samtali við Morgunblaðið fyrr í haust sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á uppsjávarskipinu Venusi NS, að Hafrannsóknastofnun væri oft of sein að bregðast við í sínum rannsóknum, en stofnunin hefði verið í fjársvelti og starfsmennirnir ættu alla hans samúð. „Fræðingarnir mega ekki gleyma því að um borð í veiðiskipunum eru mjög fullkomin tæki til mælinga og oft miklu nýrri og fullkomnari en um borð í rannsóknaskipunum,“ sagði Guðlaugur.
Sigurður Guðjónsson segir að það sé rétt að stofnunin hafi ekki haft bolmagn sem skyldi til að endurnýja tæki í rannsóknaskipunum. „Þess vegna höfum við verið á ferðinni með betlistafinn í desember,“ segir Sigurður. „Við höfum rætt við stjórnvöld og viljum endurnýja tölvu- og tækjabúnað í báðum skipunum, ekki síst að því er varðar bergmálsleitartæki. Um er að ræða einhverja tugi milljóna, sem eru ekki mjög stórar tölur í stóra samhenginu. Við erum með umsókn í svonefndum Verkfnasjóði sjávarútvegsins og erum að vona að við fáum jákvæð svör þaðan núna í kringum áramótin.“