Stjórnendur HB Granda hafa ákveðið að sækja ekki um undanþágu frá verkfalli sjómanna fyrir áhafnir uppsjávarskipanna sem fara áttu í loðnuleiðangur fyrir Hafrannsóknastofnun sem stendur fyrir dyrum.
„Okkur fannst það frekar óþægileg staða í miðju verkfalli að fara á sjó með undanþágu. Við viljum ekki rugga bátnum,“ segir Ingimundur Ingimundarson útgerðarstjóri. „Það hefði líka verið talsverð fyrirhöfn að græja skipin fyrir loðnuna og aðeins örfáa daga á sjó.“
Nefnd sjómannafélaganna sem afgreiðir undanþágubeiðnir vegna verkfallsins ætlaði að funda í dag vegna loðnumælinganna sem farið er í á allra fyrstu dögum hvers árs. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að ekki sé einhugur innan sjónmannafélaganna um hvort gefa skuli undanþágur frá verkfallinu. Sé einhver einn á móti er ólíklegt að heimildin fáist.