Franska dagblaðið Le Parisien hefur ákveðið að hætta að birta niðurstöður skoðanakannana en slíkar kannanir hafa sætt harðri gagnrýni undanfarin misseri fyrir að hafa ekki sýnt rétta mynd af niðurstöðu kosninga. Er þar einkum rætt um Brexit þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi og kjör Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna.
Í viðtali við France Inter útvarpsstöðina segir ritstjóri Le Parisien, Stéphane Albouy, að blaðið muni hætta samstarfi við Ipsos varðandi gerð og birtingu skoðanakannana og einbeita sér að fréttaflutningi eigin blaðamanna fyrir forsetakosningarnar í vor. Hann segir að miklar umræður hafi spunnist um málið á ritstjórn blaðsins en niðurstaðan hafi orðið sú að byggja á kjarnastarfseminni - á fréttaflutningi af vettvangi.
Flestir fjölmiðlar greina frá niðurstöðum skoðanakannana sem gerðar eru meðal fjölda kjósenda, annað hvort í gegnum síma eða rafrænt. En niðurstaða Brexit, forsetakosninganna í Bandaríkjanna og val repúblikana á François Fillon sem frambjóðanda flokksins í komandi forsetakosningum hefur aukið vantrú almennings á áreiðanleika slíkra kannanna.
Albouy segir að dagblöð þurfi að hlýða á gagnrýni sem að þeim beinist en þar megi heyra ummæli eins og að blaðamenn séu í engum tengslum við raunveruleikann.
Hann segist ekki beina spjótum sínum að skoðanakönnunum sem slíkum heldur sé vandamálið miklu frekar hvernig fjölmiðlar nýta sér þær.