Sektað vegna verkfallsbrots

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verka­lýðs- og sjó­manna­fé­lag Sand­gerðis hyggst sekta út­gerðarfyr­ir­tækið Nes­fisk í Garði vegna meintra verk­falls­brota um borð í fiski­skip­inu Sig­urfara GK sem gert er út af fyr­ir­tæk­inu. Einnig er til skoðunar hvort verk­falls­brot hafi átt sér stað um borð í öðru skipi fyr­ir­tæk­is­ins, Sigga Bjarna GK, en skip­in tvö eiga bæði heima­höfn í Sand­gerði og eru á sjó um þess­ar mund­ir.

Fé­lagið tel­ur að skip­stjóri og vél­stjór­ar Sig­urfara GK hafi gengið í störf sjó­manna um borð sem og mat­sveins. Haft var eft­ir Magnúsi S. Magnús­syni, for­manni Verka­lýðs- og sjó­manna­fé­lags Sand­gerðis, í kvöld­frétt­um Rík­is­út­varps­ins að skip­stjóra Sig­urfara GK hafi verið til­kynnt að sam­kvæmt kjara­samn­ing­um yrði hann að hafa mat­svein um borð í skip­inu.

Sekt­in hljóðar upp á rúm­lega hálfa millj­ón króna. Þá var haft eft­ir Bergþóri Bald­vins­syni, fram­kvæmda­stjóra Nes­fisks, að hann hefði ekki heyrt af mál­inu en að verk­fall sjó­manna væri virt af út­gerðinni. Eng­inn sem væri í verk­falli væri á sjó.

mbl.is