Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis hyggst sekta útgerðarfyrirtækið Nesfisk í Garði vegna meintra verkfallsbrota um borð í fiskiskipinu Sigurfara GK sem gert er út af fyrirtækinu. Einnig er til skoðunar hvort verkfallsbrot hafi átt sér stað um borð í öðru skipi fyrirtækisins, Sigga Bjarna GK, en skipin tvö eiga bæði heimahöfn í Sandgerði og eru á sjó um þessar mundir.
Félagið telur að skipstjóri og vélstjórar Sigurfara GK hafi gengið í störf sjómanna um borð sem og matsveins. Haft var eftir Magnúsi S. Magnússyni, formanni Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að skipstjóra Sigurfara GK hafi verið tilkynnt að samkvæmt kjarasamningum yrði hann að hafa matsvein um borð í skipinu.
Sektin hljóðar upp á rúmlega hálfa milljón króna. Þá var haft eftir Bergþóri Baldvinssyni, framkvæmdastjóra Nesfisks, að hann hefði ekki heyrt af málinu en að verkfall sjómanna væri virt af útgerðinni. Enginn sem væri í verkfalli væri á sjó.