Sjómannafélögin héldu langflest félagsfundi á milli jóla og nýárs. Þau munu hittast í fyrramálið fyrir fundinn með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í sjómannadeilunni og ræða saman.
Fundurinn fer fram hjá ríkisáttasemjara og hefst hann klukkan 13.
Frétt mbl.is: Næsti fundur eftir áramót
„Við erum búin að vera að tala saman og bera saman bækur okkar. Það verður lögð einhver lokahönd á það í fyrramálið,“ segir Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands.
Hann treystir því að aðildarfélög SFS séu öll af vilja gerð til að koma til móts við sjómenn og ná kjarasamningi. „Ég held að útgerðin sjái það eins og við að það sé þeirra kostur að fjárfesta í góðum mannskap og gera góðan kjarasamning við sjómenn til þess að fá góðan mannskap um borð í skipin. Það er fjárfesting en ekki útgjöld hjá þeim,“ segir Konráð.
Frétt mbl.is: Þarf að hugsa út fyrir boxið
Hann kveðst ekki hafa heyrt af frekari verkfallsbrotum en þeim sem greint hefur verið frá á Suðurnesjum.
„Ég held að útgerðarmenn sjái flestir hag sinn í því að vera ekki með neinar svoleiðis kúnstir vegna þess að það gerir allt ferlið miklu stirðara og erfiðara.“
Frétt mbl.is: Sektað vegna verkfallsbrots
Konráð vonast eftir góðum fundi á morgun. „ Vonandi stendur þetta, að SFS séu jákvæð í garð sjómanna og vilji af heilum hug ná kjarasamningi. Ef það er raunin held ég að við hljótum að leysa þetta mál frekar fyrr en seinna.“