Svigrúm útgerðarinnar í kjaradeilu er að þrengjast

Smásölukeðjur á meginlandinu vilja nýjan fisk daglega og ef Ísland …
Smásölukeðjur á meginlandinu vilja nýjan fisk daglega og ef Ísland klikkar þarf að finna nýja birgja íhvelli, segir Eiríkur Tómasson. Í baksýn eru togarar Þorbjarnarins, Hrafn Sveinbjarnarson GK og Gnúpur GK. mbl.is/Sigurður Bogi

„Núna fyrstu dagana í janúar ættu bátarnir samkvæmt öllu eðlilegu að vera að fara út og vinnslan að komast í gang. Í þessu er hins vegar lítið að gera nema vona að verkfallið leysist hjá sáttasemjara. Ég get lítið gert. En auðvitað er frekar súrt að horfa hér út um gluggann á skrifstofunni og sjá öll skip bundin við bryggju á tímum þegar ágætlega fiskast,“ segir Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnarins í Grindavík.

Sex skip bundin við bryggju

Hjá Þorbirninum eru sex skip í útgerð; það eru frystitogararnir Gnúpur og Hrafn Sveinbjarnarson og línubátarnir Valdimar, Hrafn, Sturla og Tómas Þorvaldsson. Þeir hafa verið bundnir við bryggju frá 14. desember eða frá því verkfall sjómanna á fiskiskipum skall á. Um þessar mundir eru það aðeins smábátamenn sem sækja sjó og það stíft, enda eftirspurnin eftir hráefni mikil svo verð á fiskmörkuðum er hátt. Magnið er þó ekki slíkt að það geti haldið uppi vinnslu í stórum fyrirtækjum og fyrir vikið er ládeyða í öllu.

Skyldu þeir róa í dag? Að þessu er gjarnan spurt í Grindavík, í bæ þar sem allt hverfist um sjávarútveginn og að hægt sé að sækja sjó. Svo er hins vegar ekki í verkfalli, þar sem virðist langt í lausn.

„Þótt oft sé erfitt að sækja sjó í janúar og febrúar vegna veðurs fiskast oft ágætlega. Á þessum tíma var að minnsta kosti fyrr á tíð gjarnan verið hér við suðurströndina. Á síðustu árum hefur hins vegar oftar verið fisk að fá fyrir austan og alveg að Kolbeinsey fyrir norðan. Skipstjórarnir hafa því þurft að færa sig alltaf lengra og lengra rangsælis um landið til þess að komast á góð mið,“ segir Eiríkur Tómasson.

Verkun á saltfiski er meginþátturinn í vinnslu Þorbjarnarins og í desember voru frá fyrirtækinu sendar miklar birgðir til kaupenda í Suður-Evrópu. Sá markaður er því birgur í bili. Sjófrystar afurðir af togurunum sem fara til Bretlands eru önnur stoð. Hin þriðja er vinnsla á ferskum fiski sem fer með flugi til kaupenda í Mið-Evrópu og Bandaríkjunum en á góðum degi fara 5-10 tonn frá Þorbirninum á þá markaði.

Viðkvæmur markaður

„Ferski markaðurinn er mjög viðkvæmur. Ég hef ástæðu til þess að óttast að hvenær sem verkfallið leysist verði kaupendur ytra búnir að setja okkur aftar í röðina. Smásölukeðjurnar á meginlandinu vilja nýjan fisk daglega og ef Ísland klikkar þarf að finna nýja birgja í hvelli, svo sem í Noregi. Samkeppnin til dæmis við Norðmennina er mjög hörð. Það verður líka að hafa í huga að í sjómannaverkföllum í kringum aldamótin var sjávarútvegurinn ekki kominn svo langt að verið væri að flytja út nýjar afurðir á hverjum degi. Þetta er til þess að gera nýr en jafnframt afar kröfuharður markaður sem við megum ekki glata,“ útskýrir Eiríkur. Við þetta segir hann svo bætast að sjávarútvegurinn sé að komast í vanda eftir um 20% styrkingu á gengi krónunnar á síðustu mánuðum. Almenn staða efnahagsmálanna skapar vanda, enda þótt að flestra mati sé góðæri á Íslandi.

Krónan dúndrast niður

„Breska pundið gagnvart íslensku krónunni er hrunið og verðið fyrir sjófrystar afurðir sem fara á Bretland er lágt. Sama máli gegnir um aðra markaði, hver sem gjaldmiðillinn er. Við þetta bætist svo að vaxtastigið, sem seðlabankinn stýrir, er hátt og erlendur gjaldeyrir sem kemur í gegnum ferðamennina streymir inn í landið og þá dúndrast krónan niður gagnvart öðrum myntum. Afkoman hefur því versnað mikið að undanförnu og svigrúm útgerðarinnar til að mæta kröfum sjómanna í kjaradeilu er mjög að þrengjast,“ segir Eiríkur Tómarsson. „Annars finnst mér, svo ég segi nú eins og er, fremur óljóst hverjar kröfur sjómanna í verkfallinu núna eru nákvæmlega. Það er greinilega blanda af mjög mörgum málum sem þarf að leysa við samningaborðið. Vonandi skýrist staðan eitthvað þegar samninganefndir sjómanna og útgerðarinnar koma saman til fundar sem boðaður er nú á fimmtudaginn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: