Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að vinna hafi farið fram undanfarna daga með aðildarfélögunum við að finna mögulegar leiðir til lausnar á sjómannadeilunni.
„Mín tilfinning er að við þurfum að hugsa út fyrir boxið því það verður ekki alltaf byggt ofan á eldri samning. Við erum í rauninni að byrja á upphafsreit,“ segir Heiðrún Lind um deiluna.
Á morgun mun SFS funda með sjómannaforystunni eftir jólafrí en síðasti fundur var haldinn 20. desember.
Frétt mbl.is: Næsti fundur eftir áramót
Spurð hvort SFS hafi rætt við sjómenn síðustu daga segir hún sambandið alltaf vera í góðum samskiptum við sjómenn. „Ég held að það sé góður vilji til að reyna að finna lausn á málinu,“ segir hún.
„Ég hugsa að línur muni að einhverju leyti skýrast á morgun og að menn nái saman um einhvers konar viðræðuáætlun.“