Marine LePen, forsetaframbjóðandi Front National í Frakklandi, hefur heitið því að berjast fyrir úrsögn úr Evrópusambandinu ef það afsalar ekki stjórn á landamærunum, löggjöf og efnahags-og peningamálum til Frakka.
Le Pen hefur áður lofað að taka evruna úr umferð og skipuleggja þjóðaratkvæðisgreiðslu í anda þeirrar bresku um aðild Frakklands að Evrópusambandinu en nú virðist afstaða hennar hafa mildast. Hún segist opin fyrir því að sameiginlegur evrópskur gjaldmiðill eigi sér stað við hlið þjóðargjaldmiðils.
Beri hún sigur af hólmi í kosningunum í maí sagði Le Pen á blaðamannafundi að hún ætli að hefja viðræður við Evrópusambandið um að endurheimta fjórar grunnstoðir fullveldisins: yfirráð yfir landsvæði, efnahag, gjaldmiðli og löggjöf.
„Annað hvort endurheimti ég þessar fjórar grunnstoðir og ráðlegg Frökkum að vera áfram í Evrópusambandinu, eða ekki og þá ráðlegg ég hið gagnstæða,“ sagði hún á blaðamannafundinum. Um evruna sagði Le Pen að hún hefði „aldrei verið andstæð upptöku ákveðinnar gerðar af sameiginlegum gjaldmiðli,“ og nefndi myntkörfu marga þjóðargjaldmiðla sem dæmi.
Kannanir sýna að Frakkar eru almennt mótfallnir því að ganga úr Evrópusambandinu en afstaða til evrunnar er öllu breytilegri. Le Pen vék að stöðu Grikklands og sagði að yfirstjórnin í Brussel hefði ekki notað evruna sem gjaldmiðil í Grikklandi heldur „hníf, sem stungið er í rifbein landsins til að þvinga það til að fara gegn vilja fólksins.“